Sorgarmiðstöð varð til með samruna fjögurra grasrótarfélaga og sjálfboðaliða árið 2019 þegar sérfræðingar og eldhugar frá Nýrri dögun, Ljónshjarta, Birtu og Gleym mér ei, sameinuðu krafta sína, þekkingu og reynslu. Þann 12. september 2019 tók Sorgarmiðstöð formlega til starfa í Lífsgæðasetri St. Jó. í Hafnarfirði og heimasíðan, sorgarmidstod.is, var opnuð.

Sorgarmiðstöð vinnur að því að samræma úrræði fyrir syrgjendur, efla samfélagsumræðu um sorg, stuðla að skilvirkari upplýsingagjöf og ráðgjöf ásamt því að almennt gæta hagsmuna þeirra sem syrgja. Sem dæmi þá gekkst Sorgarmiðstöð fyrir ráðstefnu um skyndilegan missi þann 31. ágúst þar sem rætt var hvernig hægt er að gera enn betur fyrir syrgjendur sem missa ástvin óvænt.

Mikilvægt er að hafa í huga að sorgin er eðlilegt viðbragð með margvíslegri birtingarmynd og stigum tilfinninga, allt frá afneitun, reiði og jafnvel sektarkennd, til úrvinnslu, sáttar og skilnings. Flestir ná að aðlagast breyttum veruleika með tímanum, en aðrir þurfa að upplifa og takast á við langvinna sorg með tilheyrandi skerðingu á lífsgæðum.

Rannsóknir benda til að þeir sem upplifa mikla sorg geti verið í aukinni áhættu á ýmsum geðröskunum, t.d. þunglyndi, kvíða, sjálfsvígshugsunum og áfallastreituröskun sem og líkamlegum sjúkdómum, einkum hjarta- og æðasjúkdómum. Landlæknir fékk þann heiður að vera verndari Sorgarmiðstöðvar og með því er áréttað að stuðningur við syrgjendur falli undir forvarnir og þar með lýðheilsu.

Því er mikilvægt að syrgjandi fái viðeigandi stuðning, í fyrstu til dæmis frá nærumhverfi, presti eða Sorgarmiðstöð. Ef um alvarleg einkenni er að ræða þarf úrræði fagaðila og brýnt að stjórnvöld haldi áfram þeirri vegferð að efla heilsugæslu og aðgengi að sálfræðiþjónustu. Nýsamþykkt lög um sorgarorlof er dæmi um það sem vel er gert. Starfsemi Sorgarmiðstöðvar er afar mikilvæg og hægt að kynna sér fræðsluefni og hvaða þjónusta er í boði á sorgarmidstod.is. Hér með eru færðar þakkir fyrir hið góða starf Sorgarmiðstöðvar.