Í Spámanninum eftir Kahlil Gibran er fjallað um sorgina. Þar er ritað að sorg og gleði séu systur. Báðum systrunum kynnumst við á lífsleiðinni en mismikið og á ólíkum tímapunktum. Sorgin er förunautur lífsins. Hún er samofin öllu okkar lífsferli. Sjálf kynntist ég sorg snemma á lífsleiðinni.

Þar sem ég er miðaldra horfi ég líka stundum á Gísla Martein. Í síðasta þætti var meðal annars fjallað um áföll og sorg í tengslum við sálgæslunám Eddu Björgvinsdóttur leikkonu. Þar kom meðal annars fram sá mikilvægi punktur að við lærum líklega of lítið um sorgina og hvernig við eigum að bregðast við þegar hún bankar upp á. Því þurfum við að breyta.

Sem sálfræðingur hitti ég oft fólk sem er að takast á við sorg. Sorgin sem slík þarfnast ekki klínískrar meðferðar. Hún er eðlileg viðbrögð við þeim missi sem hefur orðið. Þegar fólk upplifir sorg er gott að veita fræðslu, hlýju og stuðning. Stundum kemur sorgin vegna áfalls. Það er flókin flétta því áfallið getur komið í veg fyrir að sorgin fái að hafa sinn eðlilega gang. Í slíkum tilfellum getur fólk þurft klíníska meðferð sálfræðings.

Ég gæti skrifað heila bókaröð um skortinn á aðgengi að slíkum meðferðum. Það sem mig langar hins vegar að koma inn á hér er mikilvægi þess að við sem samfélag komum okkur upp teymi og skýrum verkferlum sem tryggja stuðning og sálfræðimeðferð fyrir fólk sem verður fyrir því áfalli að missa barn. Það er óásættanlegt að fólk sem verður fyrir slíkri lífsreynslu fái tilviljanakennda þjónustu í okkar ófullkomna geðheilbrigðiskerfi.