Íslenska þjóðin er heppin að hafa seðlabankastjóra sem þorir að tjá sig tæpitungulaust og af skynsemi um efnahagsmál. Má nefna þegar verkalýðshreyfingin fer fram með óábyrgar launakröfur sem munu stuðla að aukinni verðbólgu. Hagstjórn hefur jú þrjá arma: Seðlabankann, hið opinbera og vinnumarkaðinn.

Það er ekki sjálfgefið að seðlabankastjóri eða aðrir fróðir stígi fram með afgerandi hætti í opinberri umræðu. Það leiðir oft til þess að skömmum rignir yfir þann sem tekur af skarið. Það er hins vegar mikilvægt að seðlabankastjóri upplýsi landsmenn um hvað of miklar launahækkanir hafa í för með sér: Verðbólgu og hærri vexti. Sem sagt lakari lífskjör. Þekkt er að verðbólga bitnar verr á þeim sem standa höllum fæti.

Því miður erum við ekki jafn gæfurík með hverjir hafa valist til að leiða verkalýðshreyfinguna. Þeir sem standa í stafni hafa hvorki sýnt auðmýkt gagnvart sögunni né rannsóknum í hagfræði. Kæra sig kollótta um kjaraskerðinguna sem höfrungahlaup, það er víxlverkun launa og verðlags, sem launafólk verður fyrir. Án slíkrar auðmýktar munu leiðtogarnir leggja mikið á sig við að teyma landsmenn í „hlýjuna“ af verðbólgubálinu. Að sama skapi mun verðbólgan draga úr samkeppnishæfni atvinnulífsins sem er forsenda fyrir góðum lífskjörum almennings og öflugu mennta- og velferðarkerfi.

Þrátt fyrir að stýrivextir hafi nýverið verið hækkaðir um 0,5 prósentustig í 2 prósent og krónan styrkst hafa verðbólguvæntingar engu að síður farið vaxandi ef marka má þróunina á skuldabréfamarkaði. Það má meðal annars rekja til framgöngu verkalýðshreyfingarinnar og að ekki sé búist við öðru en að launahækkanir kjarasamninga verði hærri en hagkerfið getur staðið undir án óhóflegrar verðbólgu. Háar verðbólguvæntingar geta skapað vítahring verulegra launahækkana og stærri stökka í verðhækkun á vöru og þjónustu.

Til að bæta gráu ofan á svart magnaði hið opinbera vandann með því að semja um mun hærri launahækkanir að undanförnu en öðrum bauðst. Á hinum Norður­löndunum miðast kjarasamningar við það hverju útflutningsgreinarnar geta staðið undir en þær eru undirstaða hagsældar hvers lands.

Við þurfum að læra af reynslunni. Það er því miður ríkur vilji til að endurtaka mistökin.