Úrskurður Landsréttar um að Eflingu beri ekki að afhenda ríkissáttasemjara kjörskrá sína (félagatal) mun draga langan og afdrifaríkan dilk á eftir sér.
Raunar er það að öllum líkindum rétt hjá Jóni Steinari Gunnlaugssyni, að Aðalsteini Leifssyni hafi verið óheimilt að semja frá sér rétt sinn til að áfrýja málinu til Hæstaréttar. Óvíst er þó með öllu að Hæstiréttur kæmist að annarri niðurstöðu en Landsréttur, en úrskurður dómaranna þriggja var vel rökstuddur.
Eftir stendur að Eflingu bar að bera miðlunartillögu sáttasemjara undir atkvæði félagsmanna. Eins og Jón steinar benti á í útvarpsviðtali telst miðlunartillaga samþykkt nema tiltekinn hundraðshluti félagsmanna greiði atkvæði gegn henni. Með því að meina félagsmönnum Eflingar að kjósa um hana hefur stjórn félagsins í raun svipt þá réttinum til að hafna miðlunartillögunni.
Sólveig Anna Jónsdóttir og fylgismenn hennar eru á pólitískri vegferð og beita verkafólki fyrir sig líkt og hershöfðingjar fótgönguliðum í hefðbundnum hernaði.
Erfitt er að sjá fyrir sér atburðarás þar sem þessi deila Eflingar og Samtaka atvinnulífsins leysist með undirskrift samninga. SA geta ekki boðið Eflingu betri kjör en Starfsgreinasambandið og VR hafa samið um án þess að setja allt á annan endann á íslenskum vinnumarkaði. Eftir galgopalegar yfirlýsingar og gífuryrði er Sólveig Anna auk þess búin að mála sig út í horn.
Gildir það einu vegna þess að henni er líklegast að takast ætlunarverk sitt. Innan mjög skamms tíma mun ríkisstjórnin keyra lagasetningu í gegnum Alþingi til að stöðva verkfallið. Það fellur í hlut annaðhvort Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra eða Guðmundar Inga Guðbrandssonar vinnumarkaðsráðherra að mæla fyrir frumvarpi um lög á verkfallið.
Hér er um að ræða formann og varaformann VG, sem mældist með 5,9 prósenta fylgi meðal kjósenda í nýlegri skoðanakönnun – sem sagt rétt við það að þurrkast út. Í sömu könnun kom í ljós að VG hefur misst frá sér allt fylgi verkafólks. Eftir standa þeir einir sem í daglegu tali eru nefndir kampavínskommar og deila ekki kjörum með alþýðunni í landinu. Ólíklegt er að lög á verkfall laði fylgi alþýðunnar að VG á nýjan leik.
Sólveig Anna gæti lokið því verkefni sem forysta VG virðist hafa unnið ötullega að í þessari ríkisstjórn. Sólveigu Önnu gæti tekist að gera endanlega út af við VG.
Vegferð VG í þessari ríkisstjórn er raunar öll hin furðulegasta. VG stendur vörð um blóðmerarhald og tekur blóðdemöntum fagnandi. Firðir og vogar landsins eru gefnir hverjum sem er, helst þó útlendingum, undir mengandi sjókvíaeldi og formaður flokksins óskar eftir sérstakri undanþágu frá losunartakmörkunum fyrir Ísland og heldur upplýsingum um slíkt frá almenningi. Svo verður klykkt út með því að banna verkföll.
Fáir munu reyndar sjá eftir VG, aðrir en Bjarni Benediktsson, sem á enga traustari bandamenn en forystu VG Sumir segja að VG standi í raun fyrir Vinir Garðabæjar.