Útgjöld ráðuneyta og stofnana þeirra hafa aukist um nær þriðjung á undanförnum fimm árum. Um þetta var fjallað á forsíðu Fréttablaðsins á fimmtudag. Stærsta breytingin er aukin útgjöld til velferðar-, heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyta, sem nemur 154 milljörðum á föstu verðlagi árin 2007 til 2020. Það jafngildir rúmlega 46 prósenta hækkun til málaflokkanna.

Hjá flestum ráðuneytum er um tugprósenta aukningu útgjalda að ræða. Aukning forsætisráðuneytis og ráðuneytis menntamála er um fjórðungur og tæplega 40 prósent hjá ráðuneytum dómsmála og samgangna.

Mesta aukningin er í umhverfis- og auðlindaráðuneyti þar sem framlög nærri tvöfaldast. Á tímabilinu hafa þó mörg verkefni verið flutt yfir til ráðuneytisins. Framlög til utanríkisráðuneytisins hafa dregist saman um 2 prósent þrátt fyrir að framlög til varnarmála hafi aukist um 25 prósent og til þróunarsamvinnu um 53 prósent.

Vöxtur og aukin umsvif hins opinbera blasa við nánast hvert sem litið er. Bent hefur verið á til dæmis að stöðugildum í forsætisráðuneyti hafi fjölgað um 39 á rúmum 30 árum og séu nú 54. Afleiðing þessa er meðal annars sú að nú stendur fyrir dyrum að reisa fokdýra viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið.

Hafin er bygging sex þúsund fermetra skrifstofuhúss Alþingis við Vonarstræti sem áformað er að kosti á fimmta milljarð króna. Um þetta allt og meira til véla stjórnmálamenn. Það er athyglisvert í því samhengi að framlög til stjórnmálaflokka voru rúmlega tvöfölduð á milli áranna 2017 og 2018. Nema árlegir styrkir til þeirra á áttunda hundrað milljóna króna. Í ársreikningum stjórnmálaflokka fyrir árið 2019 sem birtir eru á vef Ríkisendurskoðunar greinir frá tugmilljóna hagnaði þeirra; Samfylkingarinnar 71 milljón króna, Sjálfstæðisflokks 67 milljónir, Flokks fólksins 43 milljónir, Framsóknarflokks 37 milljónir, Viðreisnar 24 milljónir og Vinstri grænna 38 milljónir, svo dæmi séu tekin.

Allir vita að skattfé landsmanna er ekki óþrjótandi auðlind. Vörslumenn þess þurfa að ganga um það með ráðdeild og sparsemi. Þau ósköp sem gengið hafa yfir landið með heimsfaraldrinum hafa leitt til mikils hallareksturs ríkissjóðs sem þarf að mæta. Þegar upp er staðið verður það ekki gert nema með aukningu skatttekna og skattgreiðendur þurfa að hafa sig alla við svo það takist.

Stjórnmálamenn hljóta að átta sig á að skattgreiðendur sætta sig ekki við auknar álögur nema þeir séu vissir um að fé úr sameiginlegum sjóðum sé vel varið. Það er breið samstaða um að standa eigi vel að rekstri góðrar heilbrigðisþjónustu og menntakerfis og við viljum að velferðarkerfið grípi þá sem þurfa.

Það er ekki stemning fyrir sólund á opinberu fé, og allra síst nú. Þeir flokkar sem standa fyrir því þurfa að hugsa sitt ráð ætlist þeir til að kjósendur merki við þá í kjörklefanum þegar hausta fer á ný.