Upp úr aldamótum átti almenningur Landsbankann. Hann var seldur.

Stillum okkur alveg í dómum um kaupendurna – um það allt saman hafa verið skrifaðar óþægilega nákvæmar skýrslur – en ævintýrið endaði í IceSave, einhverri undurfurðulegustu afferu Íslandssögunnar.

Það er hægt að skilja Sturlungaöldina, en þessi tími er langt handan við hana.

Búnaðarbankinn

Já, svo áttum við víst líka Búnaðarbankann og seldum hann.

Þar þurfti að vísu til útlenzkan lepp – ég treysti mér ekki til að stafsetja nafn þess þýzka banka rétt – svo að allt liti vel út, af því að útlendingar vildu endilega fjárfesta á Íslandi.

Og í Íslandi.

Var hægt að fá betri staðfestingu á því hvað við værum frábær?

Leitt hvað það var mikið skuespil, sem líka má lesa um í skýrslum.

FBA

Nokkru fyrr hafði verið seldur svokallaður Fjárfestingarbanki atvinnulífsins.

Nú ætla ég að drepa ykkur úr leiðindum, því að þessi svokallaði banki varð einkum til með samruna Fiskveiðisjóðs, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs.

Þetta voru sumsé sjóðir ríkisvaldsins – skattgreiðenda – til að bjarga kapítalistunum frá sjálfum sér og eigin voðarekstri.

Í þessu tilfelli vildi svo óheppilega til að kaupendurnir voru þáverandi forsætisráðherra ekki hugnanlegir. Bankinn hafði lent í röngum höndum.

Eftirmálin voru margvísleg, en um það óhapp hefur mér vitanlega ekki verið skrifuð skýrsla.

Núnú

Allt var þetta óskup gaman og skemmtilegt í fáein ár þangað til gervallt gillimojið fór á súrrandi hausinn, krónan hrundi (hvern hefði grunað það?), fólk missti eignir sínar og flutti til Noregs, þeir sem sviptu sig ekki lífi.

Í flókinni sögu enduðu þessar eignir, fasteignir og fyrirtæki, í höndum nýrra banka og þrotabúa hinna gömlu, og Íbúðalánasjóðs, langflestar umtalsvert undir raunverði.

Ein helzta ástæða hagnaðar nýju bankanna árum saman var að eignirnar, sem þeir fengu fyrir slikk, voru miklu meira virði en bókhaldið sýndi. Raunvirðið sýndi sig smám saman.

Eignir Íbúðalánasjóðs – heimilin sem fjölskyldur höfðu misst – voru líka seldar fyrir smámuni, ef rökstuddur grunur er réttur. En um það vitum við ekki nákvæmlega. Við fáum ekki að vita það, þótt ágætur fyrrum þingmaður hafi kallað eftir þeim upplýsingum árum saman.

Engin skýrsla þar, en stóru húsleigufyrirtækin kvörtuðu ekki.

Og svo framvegis

Lindarhvoll hét kompaní fjármálaráðherra sem fékk ýmsar eignir ríkisins – okkar – í fangið. Þær voru sannarlega seldar og um þá gjörninga er sannarlega til skýrsla. Meiraðsegja tvær.

Við fáum samt bara að lesa aðra þeirra. Sölumönnum ríkisins þykir hin óheppileg.

Og fjármálaráðherra seldi líka stóran hlut í Íslandsbanka. Hann „ber að sjálfsögðu fulla ábyrgð“ á sölunni (orðrétt tilvitnun), en eins og stundum áður er merking orðsins „ábyrgð“ meira en óljós.

Honum láðist meðal annars að tékka á því hverjum hann væri að selja áður en hann skrifaði undir. Til dæmis pabba sínum eða bara Bananalýðveldinu ehf.

Um þessa furðusölu er til skýrsla, að vísu ófullkomin og fjölmörgum spurningum ósvarað, en fjármálaráðherra kann svar við því:

„Þessu hefur öllu verið svarað.“

Þetta sagði hann líka um Panama-skjölin, Falson og Flórida.

Áfram gakk

Eftir öll þessi árangursríku og hnökralausu viðskipti kynnti fjármálaráðherra á dögunum hugmyndir um að selja Isavia, sem á þrettán flugvelli víða um land, ef ég les vef félagsins rétt.

Atarna er nú metnaður og gagnlegt framtak. Ekki bara um Leifsstöð, Akureyri og Egilsstaði, sem eru helztu innflæðis- og flóttagáttir þjóðarinnar. Við höfum aldrei fengið á hreint hvert er raunvirði flugvallanna á Gjögri og í Grímsey. Það er óþægileg óvissa.

Áður en ráðherrann verður uppiskroppa með hugmyndir eru hér fáeinar í viðbót.

Seljum Ríkisútvarpið. Mér segir svo hugur að viðtöl Stebba á löppinni og Kvöldgestir Jónasar Jónassonar séu miklu meira virði en bókhaldið segir til um. Að við nefnum ekki Andreu Jóns, Óla Palla og plötusafnið.

Hvers vegna að láta alls konar verðmæti liggja óhreyfð þegar hægt væri að koma þeim í verð?

Næst: Hví hefur aldrei verið reynt að selja Valþjófsstaðahurðina? Þjóðminjasafnið á meira af drasli en það hefur pláss fyrir. Á uppboð með þetta.

Ef pabbi er ekki geim, þá gætu einhverjir nákomnir slegið áhættufjárfestingarlán.

Ekki langt undan eru útslitnar leðurpjötlur. Ég segi ekki Flateyjarbókin, en þessi handrit eru mestmegnis tættar skóbætur, sumar með tannförum, sem hlýtur að auka verðgildið.

Lengri listi fæst gegn vægu verði, en umfram allt er mikilvægt að ráðherrann skrifi skýrslu um söluna sjálfur. Hitt væri tómt vesen og leiðindi.