Um daginn tók ég eftir því að nágranni minn var að grafa stóra holu í bakgarðinum mínum. Nágranninn er enginn vindhani svo þetta kom mér á óvart.

Aðspurður sagðist hann stefna að kolefnishlutleysi árið 2040 og að ferlarnir væru ekki nógu skilvirkir.

Í garðinum þyrftu því að rísa nokkrar vindmyllur, hann gæti ekki hangið lengur í þessari pattstöðu og hefði ekki tíma til að bíða í þau fimm til sex ár sem færu í að komast í gegnum aðalskipulag og leyfisveitingar, grenndarkynningar og rammaáætlanir.

Brýnasta mál þjóðarinnar væri að aðlaga ferlana þannig að þeir hentuðu áformum hans – og eyða þannig óvissunni sem einkennir alla umræðu um orkumál á Íslandi.

Þar sem hann gróf sína eigin gröf í garðinum mínum útskýrði hann þolinmóður að ég þyrfti að taka þetta á mig. Í þágu loftslagsmarkmiða þjóðarinnar. Annað væri eigingirni.

Sporin hræða, hvíslaði hann með tárin í augunum og titrandi efri vör, svolítið eins og Sue Ellen í Dallas, sem einnig var tengd orkumálum.

Við bara verðum að eyða þessari lamandi óvissu og skoða áform um 250 metra háar vindmyllur í Hljómskálagarðinum, Laugardalnum og á Álftanesi með opnum huga.

Taka samtalið – og taka síðan einhliða ákvarðanir sem líta út fyrir að hafa farið í gegnum ítarlegt samráðsferli.

Þetta er ekkert mál, stundi hann ofan í holuna sína, við þurfum bara að sannfæra fólk um að þetta sé í beinu samhengi við áform okkar í loftslagsmálum.