UNICEF á Íslandi hefur sett af stað fjáröflunarátakið „Komum því til skila“, til að tryggja jafna dreifingu bóluefna gegn kórónaveirunni meðal efnaminni ríkja heimsins og kallar nú eftir stuðningi almennings, fyrirtækja og stjórnvalda. Við hjá Krónunni svörum þessu kalli, enda hefur faraldurinn kennt okkur að samstaða skiptir öllu máli. Við bjóðum viðskiptavinum okkar að bæta 459 krónum við upphæðina þegar verslað er hjá okkur, en það samsvarar kostnaði við flutning á tveimur bóluefnaskömmtum til efnaminni ríkja. Á móti mun Krónan gefa krónu á móti hverri krónu sem safnast, og styrkja þannig verkefnið með jafn hárri upphæð og allir viðskiptavinir okkar til samans.

UNICEF hrindir þessu verkefni af stað sem hluta af herferð Sameinuðu þjóðanna og ítrekuðu ákalli frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnunni (WHO) og fleiri stofnunum um þörf á bóluefni um allan heim. Samkvæmt fréttatilkynningu frá UNICEF hefur minna en 1% bóluefna sem framleidd hafa verið skilað sér til efnaminni ríkja heimsins. Á sama tíma hafa tíu auðugustu ríki heims tryggt sér 80% alls bóluefnis.

Enginn er eyland, veiran er slóttug, stökkbreytist og virðir ekki landamæri. Þó svo að bólusetningar gangi vel hér á landi og við sjáum fram á líf án Covid-takmarkana á næstu mánuðum er staðan því miður ekki sú í efnaminni ríkjum heims. Með átakinu „Komum því til skila“ er markmiðið að tryggja flutning á 2 milljörðum skammta til meira en 90 lág- og millitekjuríkja, s.s. Sýrlands, Gana, Bólivíu, Úkraínu og Afganistan.

Hér á landi bárum við gæfu til að standa öll saman. Stjórnvöld, sóttvarnayfirvöld og allur almenningur. Þannig náðum við fágætum árangri. En ef efnaminni ríki eru skilin eftir er hætta á að ný afbrigði verði til þar og breiðist út um heiminn. Því er mikilvægt að taka höndum saman og tryggja heimsbyggðinni allri bóluefni. Við hjá Krónunni viljum leggja okkar af mörkum til verkefnis UNICEF og hvetjum viðskiptavini okkar til hins sama.