Ef ég fengi nokkru ráðið skyldi hvert það fífl sem gengur um með gleðileg jól á vörunum verða soðið í sínum eigin jólabúðingi og jarðað með jólaviðarstöngul gegnum hjartað.“ Svo kemst að orði Ebeneser Scrooge, einn frægasti skúrkur bókmenntasögunnar og aðalsöguhetja bókarinnar Jóladraumur eftir breska rithöfundinn Charles Dickens.

Ef frá er talið ævintýrið af fæðingu Jesú­barnsins telst Jóladraumur Dickens, um hinn illgjarna athafnamann sem heimsóttur er af þremur umvandandi jólaöndum, líklega vinsælasta jólasaga allra tíma. Í heimalandi höfundarins er sagan sett á svið í öllum helstu borgum í desember. Í leikhúshverfi Lundúna mátti í ár sjá samtímis þrjár mismunandi uppfærslur. Svo rótgróin er sagan um Scrooge, eða Skrögg á íslensku, sem telur eftir sér að gefa starfsmanni sínum frí á jólum og tímir ekki að láta fé af hendi rakna til fátækra, að nafnið er orðið hluti af enskri tungu og táknar meinfýsinn nískupúka.

Hvernig stendur á því að ævintýri sem var skrifað fyrir 179 árum nýtur enn slíkrar hylli?

Jóladraumur kom út árið 1843. Dickens var ekki nema 31 árs. Þótt hann væri þá þegar vinsæll rithöfundur átti hann í fjárhagsbasli. Nýjasta bók hans hafði selst illa og útgefandinn hótaði að skera niður laun hans.

Dickens hafði fyrir fjölskyldu að sjá og átti von á fjórða barni sínu. Hann skrifaði Jóladraum af óttablöndnum ákafa á aðeins sex vikum. Bókin fór í sölu 19. desember. Hún var uppseld á aðfangadag.

En þrátt fyrir vinsældir var hagnaðurinn lítill. Dickens vildi að bókin yrði vel úr garði gerð og var framleiðslukostnaður hár.

Við fyrstu sýn kann Jóladraumur að virðast lítið annað en snoturt jólaævintýri. Sagan er þó svo miklu meira. Í bókinni segir Scrooge að hinir fátæku megi deyja fyrir sér því það dragi úr óæskilegum „umfram fólksfjölda“. Orðalagið er ekki stórlega ýkt slagorð teiknimyndaþorpara heldur hugmynd sem naut vinsælda í bresku samfélagi á Viktoríutímanum. Er hún rakin til hagfræðingsins Thomas Malthus sem óttaðist að ræktarland heimsins dygði ekki til að fæða síaukinn mannfjölda og því væri dauði af völdum hungursneyðar óhjákvæmilegur.

Jóladraumur er ádeila á harðneskjulegt viðhorf til fátæktar á Viktoríutímanum. Sögunni er ætlað að „opna hjörtu lesenda fyrir þeim sem heyja harða lífsbaráttu í neðstu þrepum samfélagsins,“ segir Michael Slater, fremsti Dickens-sérfræðingur Breta. „En hún er einnig aðvörun um hætturnar sem stafa að samfélaginu af völdum almennrar fáfræði og óuppfylltra þarfa fátækra.“

Dickens skrifaði af innsýn. Hann hafði sjálfur upplifað niðurlægingu fátæktar á eigin skinni. Þegar Dickens var tólf ára var faðir hans sendur í skuldafangelsi. Dickens var tekinn úr skóla og látinn vinna í verksmiðju þar sem framleiddur var skóáburður. Atburðurinn markaði hann fyrir lífstíð.

Köld jólakveðja

Skömmu fyrir jól mátti lesa eftirfarandi fyrirsögn í Fréttablaðinu: „Sætti sig við að vera án jóla en átti ekki von á að enda á götunni.“ Fréttin fjallaði um 65 ára einstæðan sjúkling, Brynju Bjarnadóttur, sem fékk kalda jólakveðju í tölvupósti frá leigufélaginu Ölmu; tilkynningu þess efnis að hækka ætti mánaðarleigu hennar um 75.000 krónur, úr 250.000 krónum í 325.000. „Ég lendi á götunni um áramót,“ sagði Brynja.

Á síðustu 18 mánuðum hagnaðist leigufélagið Alma um rúma 17 milljarða króna samkvæmt Kjarnanum, eða um 950 milljónir króna að meðaltali á mánuði.

Hvað útskýrir langlífi Jóladraums Dick­ens? Þetta. Á árinu 2022 lifir enn í glæðum Viktoríutímabilsins.

Megi jólaandarnir þrír vitja þeirra sem það eiga skilið í nótt. Ykkur hinum óska ég gleðilegrar hátíðar.