Kjarasamningaviðræður í haust verði enn snúnari en venjulega.

Valdahlutföll innan ASÍ hafa snúist og þau öfl sem stóðu að baki Drífu Snædal, og Gylfa Arnbjörnssyni áður, eru komin í minnihluta. Vilhjálmur Birgisson, Ragnar Þór Ingólfsson og Sólveig Anna Jónsdóttir hafa tekið við valdakeflinu.

Engum getur dulist að þessi breyting hefur mikil áhrif á kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar í komandi kjarasamningum. Mikil áhersla verður lögð á hlutskipti hinna lægst launuðu, auk þess sem krafist verður úrbóta á húsnæðismarkaði og lækkunar vaxta, en mikill og vaxandi húsnæðiskostnaður er það sem helst ógnar fjárhagslegu öryggi launafólks hér á landi.

Fjármálaráðherra segir alls ekki sjálfsagt að ríkið komi á nokkurn hátt að gerð komandi kjarasamninga. Þar skjátlast honum hrapalega, sé honum alvara með orðum sínum. Ekki aðeins er það skrifað í skýin að aðkomu ríkisins sé þörf. Það er meitlað í stein.

Ríkisstjórnin ber mesta ábyrgð á því hversu erfiðir kjarasamningar eru fram undan. Vegna hagstjórnarmistaka hennar og handarbakavinnubragða Seðlabanka Íslands horfir launafólk nú upp á kaupmáttinn rýrna um hver mánaðamót og komandi kjaraviðræður kalla á hugvitsamlegar lausnir.

Ríkisstjórnin hefur með öllu neitað að koma til móts við heimili landsins þegar farsótt og stríðsrekstur úti í heimi valda gríðarlegum verðhækkunum. Þetta er ein ástæða þess að Seðlabankinn hefur hækkað vexti margfalt umfram það sem aðrir seðlabankar hafa gert.

Ríkisstjórnin hefur það í valdi sínu, og ber raunar skylda til, að koma með aðgerðapakka sem stuðlar að raunhæfum og hófsömum kjarasamningum. Lítil og meðalstór fyrirtæki eru launagreiðendurnir sem þurfa að greiða þær launahækkanir sem um semst. Þessi fyrirtæki búa við afleita samkeppnisstöðu vegna þess himinháa vaxtakostnaðar og fjallháa viðskiptakostnaðar sem íslenska krónan skapar þeim.

Ríkisstjórnin verður að koma að borðinu.