Mikill fjöldi Íslendinga á öllum aldri greinist með ADHD á hverju ári. Margir neyðast til að hefja lyfjameðferð sem reynist misjafnlega eins og gengur. Mikil samfélagsumræða er um ADHD og afleiðingarnar á daglegt líf. Foreldrar hafa áhyggjur af námsárangri ofvirkra barna sinna. Fullorðnir segjast ekki ná neinni einbeitingu í daglegu lífi.

ADHD er ekkert nýtt fyrirbæri. Einn frægasti höfðingi sögualdar, Snorri goði Þorgrímsson, var illa haldinn af ofvirkni og einbeitingarskorti. Hann missti föður sinn mjög ungur og var komið fyrir hjá fjarskyldum ættingjum í Álftafirði. Drengurinn var fyrst nefndur eftir föður sínum og kallaður Þorgrímur. Hann var þó svo ósvífinn og erfiður að menn fóru að kalla hann Snerri eða Snorra, það er hinn óþekka. Af lýsingum Eyrbyggju að dæma var Þorgrímur Snorri illa haldinn af mótþróaþrjóskuröskun og ADHD. Sennilega þjáðist hann líka af tengslaröskun, eins og oft sést hjá börnum sem alin eru upp hjá vandalausum og sakna eðlilegrar nándar við foreldra sína.

Með árunum varð Snorri víðfrægur spekingur og stjórnmálamaður. Þess er getið í sögunum að menn flettu upp í honum eins og alfræðiorðabók vegna alls konar deilumála.

Þegar foreldrar lýsa yfir áhyggjum vegna barna sinna með ADHD segi ég þeim alltaf söguna af Snorra goða. Honum tókst að sigrast á einbeitingarskortinum og verða mesti pólitíkus aldarinnar. Það má þakka meðfæddum gáfum og þeirri staðreynd að enginn vissi að hann var með ADHD. Hann lærði að lifa með þessum einkennum sínum og nýta sér þau til hins ýtrasta en lét þau ekki hamla sér eða stjórna lífi sínu.