Ég er á fullu við að ná fram minni bestu Farrah Fawcett-greiðslu með hár­blásaranum þegar reyk­skynjarinn fer í gang. Til allrar lukku er hárið ekki að brenna heldur stendur reykur upp úr espresso-könnunni sem ég gleymdi á elda­vélinni. Engar á­hyggjur, þetta er ekki svo slæmt. Kaffið smá brennt og lítið mál að þrífa kaffi­sletturnar á hellunni. Ég trúi ekki að ég hafi bara gleymt kaffi­könnunni á heitri hellunni. Það er greini­lega eitt­hvert stress í mér.

Fæ mér fyrsta kaffi­sopann með hálfa Fawcett-greiðslu, opna far­tölvuna og stimpla sjál­krafa inn: ugla.hi.is inn í vafrann þrátt fyrir að hafa tekið á móti próf­skír­teini mínu úr fimm ára meistara­náminu í júní síðast­liðnum. Ég er ekki skráð í nám, þetta er bara eitt­hvað ég geri sjálf­krafa, eitt­hvað sem ég er vön að stimpla inn að loknu sumri.

Hálfa leiðina niður stiga­ganginn fálma ég eftir lyklunum ... sem ég gleymdi á eld­hús­borðinu. Ekkert mál, ég er ný­búin að láta mömmu fá vara­lykil.

Ég er greini­lega eitt­hvað úr takti í dag. Kannski er gos­móðan og gráa veðrið á höfuð­borgar­svæðinu að rugla eitt­hvað í mér, ein­hvers konar snemm­búið skamm­degis­stress ofan á far­sóttar­þreytuna gömlu góðu. Ég reyndi alveg að njóta sumarsins en þessi fjórða bylgja er al­gjör orkusuga. Og ég er sko barn­laus og við góða heilsu. Ég hef bara haft það gott miðað við marga.

Þessar enda­lausu sveiflur í lífinu hafa ó­neitan­lega á­hrif á skapið. Við opnum og lokum og slökum og herðum en svo er engin al­menni­leg losun. Svona kaþarsis eins og eftir geggjaða leik­hús­sýningu. And­varpið. Guð, hvað það er langt síðan ég and­varpaði al­menni­lega og losaði um þessa ei­lífðar­spennu.

Hér er enginn loka­punktur. Ég bara kvíði fyrir haustinu, það er allt og sumt.