Félagshyggjuöflin eru rétt að byrja að ranka við sér eftir rothöggið sem þau hlutu í kosningunum um síðustu helgi. ESB-umræðan vakti álíka lukku og þriðji orkupakkinn. Veggur með kroti í miðbæ Reykjavíkur er síðan það eina sem minnir á ákall um nýju stjórnarskrána.

Áfallið er slíkt að efast má um að Logi Einarsson sé búinn að senda SMS á Katrínu Jakobsdóttur með beiðni um að kíkja í kaffi. Kannski ætti hann að spá í samstarf við Viðreisn og Pírata.

Það blasir við að sterk sameining félagshyggjuaflanna með Kristrúnu Frostadóttur og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur í framsætinu, og Píratana í aftursætinu gæti verið vænlegur kostur.

Veisluhöld

Góður varnarsigur Sjálfstæðis­flokksins breytir einnig stöðunni þar á bæ.

Kjósendur voru sviknir um mikla veislu þegar bæði Brynjar Níelsson og Gunnar Smári Egilsson náðu ekki kjöri. Brynjar, sem var svikinn um ráðherrastól á sínum tíma, er með pólitískt bensín á tanknum. Blasir við að hann á greiða leið inn í borgarstjórn í maí á næsta ári.

Gunnar Smári á einnig góða möguleika, sérstaklega ef borgarfulltrúum verður aftur fjölgað.