Allt sem ég veit um lífið og tilveruna hef ég úr kvikmyndum og leita frekar í þann viskubrunn heldur en röklausar skyndilausnir pólitíkusa þegar þessi árans smitvá býr í lofti og ferðast hratt milli landa.

Sennilega þess vegna hefur atriði úr Tucker: The Man and His Dream eftir Francis Ford Coppola sótt á mig síðustu daga. Þar segir frá Preston Tucker, stórhuga uppfinningamanni, sem reyndi skömmu eftir seinna stríð að markaðssetja snilldarhugmynd sína um krúttlegan þriggja hjóla bíl.

Hann fór lóðbeint á hausinn með Tuckerinn sinn. Aldraður endurskoðandi Tuckers deildi vonbrigðunum með honum og reyndi að sleikja sárin með upprifjun á gömlum varnaðarorðum mömmu sinnar. Hún hafði bannað honum að fara of nálægt fólki vegna þess að hann gæti fengið af því sýkla. Misheyrn þar sem enska orðið „germs“ varð „dreams“ varð til þess að upp frá því forðaðist hann fólk sem gæti smitað hann af draumum sínum. Ekki algalið þar sem draumar, hugmyndir, langanir og jafnvel hættulegar stjórnmálaskoðanir eru jafn bráðsmitandi og kvef, ælupestir og kórónaveikin.

Hugmyndir um að loka landinu og breyta Egilshöll í smitfangabúðir með bíósal og keilubrautum eru því vitaskuld þvættingur sem gerir ekkert annað en magna upp ótta sem skilar sér mögulega í prósentubrotum þeirra allra hræddustu í skoðanakönnunum.

Lífið sjálft er smitsjúkdómur sem virðir engin landamæri, hvorki náttúruleg né manngerð. Ég meina, fólk mun meira að segja halda áfram að kyssast, faðmast, ríða og haldast í hendur þótt varað sé við því og mælt með sprittun.

Þetta er það sem það er og kemur hvort sem okkur líkar betur eða verr og í hversu sturlaða vörn við pökkum.

Höldum ró okkar og höldum áfram.