Röðin í bakk­elsið náði svo langt sem augað eygði þennan sunnu­dags­morgun á bænda­markaði í Kali­forníu, en þangað höldum við hjónin gjarnan þegar við erum á svæðinu. Þrátt fyrir að þarna flæddi úr kössum líf­rænt græn­meti beint frá bónda, þá sigraði brauð­meti í vin­sælda­keppninni. Að vissu leyti skil ég að­dráttar­afl sæta­brauðs því um nokkurt skeið var það minn morgun­matur – áður en ég lærði að það gerði mér ekkert gott. Þegar ég gekk fram hjá röðinni hugsaði ég með mér að það væri engu líkara en fólkið (og ég hér áður fyrr) væri strengja­brúður sterkara afls. Mér er minnis­stætt hve hel­víti erfitt var að hætta að borða bakk­elsi; það var engu líkara en manni væri stýrt í átt að sæta­brauðinu.

Manuel Ber­doy og fé­lagar við Ox­ford-há­skóla birtu vísinda­grein árið 2000 um hið kæna sníkju­dýr Toxop­lasma gondii sem fjölgar sér í þörmum katta. Þegar rotta étur skít frá sýktum ketti þá hert­ekur sníkju­dýrið heila þess og nemur brott hræðsluna við ketti. Sem meira er, rottan leitar uppi lykt af katta­hlandi og verður með því auð­veld bráð. Fleiri ör­verur sýna há­þróaðar leiðir til að stjórna öðrum líf­verum í eigin þágu. Hunda­æðis­veiran Rabies breytir heila­svæðum sem stjórna á­rásar­hneigð á þann hátt að dýrið byrjar að bíta annað dýr (eða mann) og með því nær veiran að flytja sig með munn­vatni á milli hýsla.

Jafnt og þétt fjölgar rann­sóknum á tengslum þarma­flóru og heila, en sýnt hefur verið að þarma­flóran fram­leiðir ýmis boð­efni, ensím og önnur efna­sam­bönd sem hafa á­hrif á stjórn­stöðina – heilann. Ætli við séum stundum á valdi annarra vera sem birtust á jörðinni löngu áður en við mann­fólkið komum til sögunnar? Það má hugsa um þetta næst þegar löngun í bakk­elsi hert­ekur hugann.