Rétt fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar var lofað að klára mælaborð borgarinnar. Loforðið var síðan sett í málefnasamning eftir kosningar. Mælaborðið var sett í loftið í ársbyrjun 2019 með tölum frá 2017. Eitthvað virðist mælaborðið þó hafa bilað, eða þá að slökkt hafi verið á mælunum. Að minnsta kosti eru sömu fjárhagsupplýsingarnar enn á vefnum nokkrum árum síðar. Skrýtið mælaborð það. Skuldastaða er birt óbreytt, en skuldir borgarinnar jukust verulega í góðærinu. Þær hafa stökkbreyst á þessu kjörtímabili þrátt fyrir stórauknar tekjur. Hækkuðu um milljarð á hverjum mánuði. Mælaborðið sýnir þó enga hækkun skulda.

Opin fjármál lokuð

Svipaða sögu er að segja af vefnum „Opin fjármál Reykjavíkurborgar“, en þar eru nýjustu gögn tveggja ára gömul. Mælaborðið og „opnu fjármálin“ eru með öðrum orðum með eldri upplýsingar en ársreikningar borgarinnar. Lítið gagn er í slíku mælaborði. Einhverjir gætu talið sem svo að birtar væru nýjustu upplýsingar, en því fer fjarri. Vitaskuld. Miklu hefur verið kostað til í að forrita mælaborð borgarinnar. Þar kemur þó ekki fram skuldastaða samstæðu borgarinnar, en hún stendur í 382 milljörðum í september 2020 samkvæmt nýjasta árshlutareikningi. Réttast væri að vera með skuldaklukku á vefnum þannig að íbúar sjái hvernig þróunin er. Skuldasöfnun borgarinnar var á fullu í góðærinu. Löngu fyrir kórónukreppuna. Kannski er það ekki tilviljun að fjármálin skuli ekki vera uppfærð á mælaborðinu?

Er ekki tími til kominn að tengja?

Píratar hafa lengið talað fyrir gagnsæi og betra aðgengi að upplýsingum. Samfylkingin hefur hrósað sér af fjölmennri og öflugri stjórnsýslu. Viðreisn hefur talað fyrir ábyrgri fjármálastjórn. Eitt er að lofa og annað að gera. Mælaborð sem virkar ekki er gagnslaust. Sá sem ætlar að nota fjárhagsupplýsingar sem er að finna á mælaborði borgarinnar finnur fátt nothæft. Því er eðlilegt að spurt sé: Er ekki tími til kominn að tengja?