Kári Stefánsson varpar fram spurningum og fullyrðingum um sjávarútveginn sem verðskulda svör og frekari umræðu. Stórt er til að mynda spurt um mun á verði makríls við löndun í Noregi og á Íslandi. Sjálfum leikur mér forvitni á að kanna það mál rækilega og er byrjaður að afla gagna til að svara. Það getur tekið tíma en svar kemur ásamt svörum við öðrum spurningum. Ég vænti þess að Fréttablaðið veiti áfram þessum skoðanaskiptum rúm á síðum sínum.

Kári birti hér í Fréttablaðinu grein 3. desember undir fyrirsögninni Landráð? og taldi líklegt að útgerðarmenn hefðu stolið 300 milljónum króna af verðmæti makríls af íslenskri þjóð. Ég sýndi fram á það með rökum hér á sama vettvangi 18. desember að sú þjófnaðarkenning stæðist enga skoðun.

Í grein minni 18. desember sl. áætlaði ég að árlegt útflutningsverðmæti makrílafla frá 2006 til 2018 hefði numið 200 milljörðum króna á verðlagi hvers árs og að meðalverð hvers útflutts kílós af makríl hefði numið 130 kr./kg. En hvað varð um alla þessa peninga? Voru sjómenn hlunnfarnir? Voru sveitarfélög hlunnfarin eða ríkissjóður? Og hve stór var sneið útgerðarfyrirtækja af kökunni?

Mikilvægar spurningar og rökstudd drög að svörum má finna í niðurstöðum útreikninga KMPG fyrir skattaspor Vinnslustöðvarinnar árin 2014, 2015 og 2017. Skattaspor greinir hvernig tekjur félagsins skila sér til samfélagsins og hvernig þær greinast í almennan rekstrarkostnað, laun, skatta, iðgjöld í lífeyrissjóði, vaxtakostnað og hagnað en lýsir ekki jaðarframlegð, hvorki fisktegunda né heildar, sem erfitt er að útlista í stuttri blaðagrein.

Sé skattaspor KPMG fyrir Vinnslustöðina yfirfært á íslenskan sjávarútveg í heild er skipting útflutningsverðmætis makríls sýnd í töflu sem greininni fylgir.

Stærstur hluti tekna af makrílnum, 57 af hverjum 130 krónum, fór þannig í almennan rekstrarkostnað (olíu, rafmagn, varahluti, löndun, viðhald, útflutning o.fl.). Launafólk í innlendum fyrirtækjum sem þjónustuna veita naut sem sagt góðs af því sem fór í almennan rekstrarkostnað og opinberir aðilar sömuleiðis. Ef við gefum okkur sambærilega skiptingu á þessum hluta og hjá sjávarútveginum, og drögum frá áætlaðan erlendan kostnað upp á 20 kr., bætast 16 kr. af þessum 57 við hlut ríkisins.

Beint og óbeint runnu 26 kr. til ríkis og sveitarfélaga og til lífeyrissjóða runnu 5 kr. eða alls 31 kr. af 130. Ef við bætum ofangreindum 16 kr. við þá runnu í vasa ríkis, sveitarfélaga og lífeyrissjóða samtals um 72 milljarðar af tekjum þjóðarinnar upp á 200 milljarða króna.

Í vasa launafólks á sjó og landi fóru 24 kr. af 130, eftir skatta.

Þá er útgerðin eftir og hlutur hennar var 11 krónur til að greiða af lánum sínum, greiða sér arð eða til nýfjárfestinga. Hlutur hennar náði þannig ekki helmingi þess sem rann til ríkis og sveitarfélaga.

Síðast en ekki síst þarf að fjármagna reksturinn með lánum og í hlut lánastofnana komu 7 kr. af hverjum 130.

,,Skylt er að hafa það heldur er sannara reynist,“ sagði Ari fróði forðum. Hér liggur sem sagt fyrir gróflega áætluð skipting tekna af makrílveiðum Íslendinga. Á grunni talna, en ekki sögusagna eða rakalausra fullyrðinga, geta nú Kári Stefánsson og aðrir rökrætt hvað teljist „sanngjarn hlutur“ hvers og eins. Þá vænti ég þess að áframhaldandi blaðaskrif hans byggist á þeirri vísindalegu aðferðafræði sem fleytt hefur honum í hóp færustu vísindamanna heims.