Í dag blaktir blár og gulur fáni við hún um alla Evrópu og víðar, í til­efni þjóð­há­tíðar­dags Úkraínu. Sjálf er þjóðin tvístruð um alla Evrópu, hrakin af heimilum sínum, frá námi, vinnu og dag­legu lífi, undan árás sem ekkert okkar botnar upp né niður í.

Úkraínska þjóðin er með allra harð­gerðustu þjóðum álfunnar. Hún hefur þolað hungur­sneyð, kúgun og á­rásar­stríð en bognar ekki. Bar­áttu­þrek hennar hefur komið heims­byggðinni veru­lega á ó­vart. Að öðru leyti er úkraínska þjóðin ekkert frá­brugðin öðrum Evrópu­þjóðum, hún saman­stendur af fólki með fjöl­breyttan bak­grunn og ó­líkar skoðanir. Um eitt var hún þó sam­mála, því yfir 90 prósent hennar stað­festu með at­kvæði sínu yfir­lýsingu um sjálf­stæði Úkraínu frá Sovét­ríkjunum árið 1991. Þennan ein­beitta vilja sætta Rússar sig ekki við, ekki fremur en yfir­lýstan vilja Úkraínu til þátt­töku í al­þjóða­sam­starfi sem byggir á rót­grónum lýð­ræðis­hefðum og virðingu fyrir mann­réttindum.

Á undan­förnum árum hafa miklar á­skoranir blasað við þeirri far­sælu Evrópu­sam­vinnu sem tryggt hefur frið í álfunni í ára­tugi. Popúlistar hafa náð fót­festu víða og hafa í nokkrum löndum gert mikinn skaða. Bretar ráku fleyg í lang­varandi og far­sælt Evrópu­sam­starf, vinum sínum og ná­grönnum til furðu og von­brigða. Í nokkrum Evrópu­ríkjum hafa réttar­ríkið og vernd mann­réttinda vikið fyrir popúlískum stjórnar­háttum og ein­ræðis­til­burðum.

En al­þjóða­sam­vinna er eitur í beinum ein­ræðis­herra og í­búar Evrópu finna það sterkar nú en áður. Þannig hefur inn­rás Rúss­lands í Úkraínu aukið skilning á nauð­syn þess að standa vörð um horn­steina frelsis og friðar í álfunni. Við viljum tryggja rétt fólks til að búa í friði í landi sínu og njóta þar frið­helgi og frelsis, og við finnum endur­nýjaða þörf til að standa vörð um réttar­ríkið, leik­reglur lýð­ræðis og tjáningar­frelsi. Þetta sýna kannanir meðal al­mennra borgara víða um álfuna og á­hugi full­valda ríkja á þátt­töku í mikil­vægum al­þjóða­sam­tökum.

Ó­líkt því sem popúlistarnir halda fram, styrkir öflug al­þjóða­sam­vinna sjálf­stæði allra þátt­töku­ríkja á meðan ein­angrunar­hyggja brýtur undir­stöður þess niður. Þetta veit úkraínska þjóðin og þótt hún finni fátt að gleðjast yfir í þeim hörmungum sem ná­grannar hennar leggja nú á hana af ó­skiljan­legri grimmd, hyllum við sem erum vinir hennar úkraínsku þjóðina og fögnum sjálf­stæði hennar í dag. Við deilum með henni heimilum okkar, bak­garði, breið­strætum, torgum og öllum fána­stöngum sem við eigum. Við fögnum styrk hennar, lang­lundar­geði og þraut­seigju. Hún lengi lifi. Slava Ukra­ini!