Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, er Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra, veiðimaður. Hann hefur stundað hreindýraveiðar og jafnvel birt myndir af sér yfir dauðu hreindýri á netinu, glaðbeittur á svip og stoltur, að sjá, yfir því, að hafa drepið saklaust og varnarlaust dýrið. Sumir telja slíkt afrek.

Ekki virðist því mikill varmi í hjarta umhverfisráðherra gagnvart villtum dýrum.

Hlutverk umhverfisráðherra

Það er kaldhæðnislegt, að veiðimaður skuli vera skipaður umhverfisráðherra, en Bjarni Benediktsson, sem að því stóð, er betur þekktur fyrir annað, en sérstaka virðingu fyrir náttúru landsins og lífríkis þess.

Flestir skilja, að láð, loft og lögur, fána og flóra, mynda eina samverkandi og órjúfanlega heild, sem öll á að vera verk- og ábyrgðarsvið umhverfisráðherra. Kannske skilur Bjarni þetta ekki, en vonandi Guðlaugur Þór.

Með því falla auðvitað villt dýr, hér hreindýr, líka undir ábyrgðarsvið umhverfisráðherra.

Skipta hreindýr máli?

Fána Íslands er fábreytileg. Villtar dýrategundir eru örfáar. Fyrir alla, sem vilja viðhalda því dýraríki, sem er, eru hreindýrin því mikilvæg, enda falleg dýr og tignarleg, sem auðga náttúru og umhverfi.

Hreindýrin skipta líka máli fyrir ferðaþjónustuna, en víða um heim eru hreindýrin og ímynd þeirra nátengd jólahaldi og jólagleði. Hafa því margir ferðamenn, ekki sízt fjölskyldufólk, börn, af því gleði, að fara austur og leita þar hreindýra.

Eru hreindýraveiðar nauðsynlegar?

Nú eru hreindýrin 5-6.000, á sama tíma og 700-800.000 fjár eru á fjalli og hestar, mest í útigangi, eru 70-80.000. Þannig eru minnst 800.000 grasbítar í landinu, og fjöldi hreindýra því undir 1%.

Mín vegna mætti því leyfa hreindýrum að breiða úr sér um landið, og er líklegt, að náttúran sjálf myndi stýra fjölda skv. umhverfi og lífsskilyrðum.

Á Svalbarða lifa um 22.000 hreindýr á langtum minna svæði, en hreindýrin hér. 1980 voru þau rúm 10.000. Fjölgun því hæg.

Í Svíþjóð eru um 400.000 elgir, sem eru miklu stærri og þurftarmeiri dýr en hreindýr.

Fara veiðarnar fram af mannúð og virðingu við dýrin?

Ekki á allan hátt. Af þeim hreindýrum, sem voru drepin sumarið 2018, voru 33 dýr með gömul skotsár, með sár og áverka, sem þau höfðu lifað af, kannske með miklum hörmungum og kvalræði, til þess eins að verða skotin aftur.

Veiðimenn og leiðsögumenn hafa þó skuldbundið sig til, að elta uppi særð dýr og aflífa.

Hversu mörg dýr skyldu hafa verið skotin, meidd og limlest, án þess að drepast strax, en hafa svo dáið drottni sínum, eftir lengri eða skemmri píslargöngu, er svo önnur spurning.

Þetta finnst veiðimönnum, leiðsögumönnum, Umhverfisstofnun (UST), Náttúrustofu Austurlands (NA) og umhverfisráðherra greinilega í lagi.

Alla vega er þetta látið gott heita.

Önnur hlið og enn verri!

  1. ágúst sl. máttu veiðimenn byrja að skjóta hreinkýr. Þær eru þó alflestar með kálfa, en þar sem þeir fæðast seinni hluta maí, jafnvel fram í júní, eru þeir yngstu rétt 8 vikna, þegar farið er að drepa mæður þeirra frá þeim.

Allir, sem eitthvað vilja vita, vita auðvitað, að engin 8 vikna spendýr, hvorki hvolpar, lömb, kálfar né folöld, hafa náttúrulega burði til að standa á eigin fótum, ein með sjálfum sér, enda drekka hreinkálfar móðurmjólkina minnst til 5 mánaða aldurs.

Er þetta hreinkúadráp, með og frá 1. ágúst, því hrein misþyrming á kálfunum, fyrir undirrituðum dýraníð af verstu gerð.

Tilmæli UST um, að geldar kýr séu mest veiddar fyrstu 2 vikurnar, eru bara yfirklór.

600 kálfar fórust úr hungri og vosbúð veturinn 2018-2019

Skv. skýrslu, sem NA gaf út 2019, var meðaldánartíðni hreinkálfa þann vetur 21%. Var dánartíðnin frá 9% upp í 45% eftir svæðum. Talan 45% er auðvitað ógnvekjandi; annar hver kálfur fórst.

Skv. öðrum upplýsingum NA, taldist undirrituðum til, að 600 kálfar hefðu farizt þennan vetur, sem þó var mildur.

Engum blöðum er um það að fletta, að flestir þessir kálfar hafa verið móðurlausir ræflar.

Rangfærslur leiðsögumanna og NA

Í viðtali við Vísi sagði formaður félags leiðsögumanna hreindýraveiðimanna, sem teljast verður talsmaður NA líka, þetta: „Í rauninni höfum við ekkert í höndunum um það, að það (lengdur griðatími kálfa) breyti einhverju fyrir kálfana, af því að sú rannsókn er ekki til“.

Þetta sýnir auðvitað lágkúruna, sem á bak við þessar veiðar býr, ósannindin, því að það eru til margvíslegar heimildir, vísindagreinar, sem sýna og sanna, hversu erfitt uppdráttar ungviði, sem misst hefur móður sína, á sér. Hér eru nokkrar slíkar:

„Kálfur, sem missir móður sína, hefur minni lífslíkur að vetri, þar sem hann nýtur ekki mjólkur né leiðsagnar hennar við beitina“ (Sjennberg and Slagsvold“ (1968)).

„Það hefur afgerandi þýðingu fyrir afkomumöguleika afkvæma stórra spendýra á norðurhveli jarðar og möguleika þeirra til að lifa af, hversu lengi og í miklum mæli þau njóta umhyggju og umönnunar foreldra“ (Stearns (1992)).

„Niðurstaðan var, að færri móðurlausir kálfar lifðu af en þeir, sem móður áttu (Joly (2000)).

„Munaðarleysingjum, sem eru lægstir í goggunarröðinni, er oft ýtt út í jaðar hópsins“ (Green et al. (1989)).

„Kostir náins sambands móður og afkvæmis, umfram mjólkurgjöf, felast í umönnun, vernd og kennslu móður á grunnvenjum, nýtingu beitilands, leiða til að lifa af og leita sér skjóls“ (Lent (1974)).

Manndómur Fagráðs um velferð dýra

Fagráð um velferð dýra er skipað yfirdýralækni, Sigurborgu Daðadóttur, og fulltrúum fjögurra samtaka, sem tengjast dýrahaldi og dýravelferð. Á það að vera Matvælastofnun (MAST) og þar með UST og umhverfisráðherra „… til ráðuneytis um stefnumótum og einstök álitaefni, er varða málefni á sviði velferðar dýra“ skv. lögum.

Haustið 2019 beindi Fagráðið þessum tilmælum til MAST, UST og umhverfisráðherra: „að kýr verði ekki skotnar frá kálfum yngri en þriggja mánaða …“. Þetta hefði þýtt, að veiðitími kúa hefði ekki mátt hefjast fyrr en 1. september, í stað 1. ágúst. Hefði verið spor í rétta átt.

Á fundi MAST, UST, NA og umhverfisráðuneytisins í janúar 2020, áréttaði svo Fagráðið tilmæli sín um bætta velferð hreinkálfa með því að mælast til, að hreinkýr yrðu ekki drepnar frá kálfum sínum svo lengi, sem þær væru mjólkandi, sem var auðvitað málefnaleg og mannúðleg hugsun og tillaga.

Skv. henni hefði fyrst mátt veiða hreinkýr 1. nóvember, þegar kálfar væru 5 mánaða. Hefði staða þeirra gagnvart vetri og lífsbaráttunni þá auðvitað verið miklu betri.

UST, NA og þáverandi umhverfisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, sem átti að heita Vinstri grænn, gerðu hins vegar ekkert með þetta. Völd veiðimanna og hagsmunaaðila eru mikil.

Hvað gerir Guðlaugur Þór?

Veiðimál Guðlaugs Þórs voru nefnd hér í upphafi, og kalt hjarta hans gagnvart þeim.

Nú má, hins vegar, sjá á Facebook, að Guðlaugur Þór á Golden Retriever hund, fallegan og gerðarlegan, sem Guðlaugi er greinilega annt um, hefur mikið með sér og hefur dálæti á.

Í brjósti hans býr því annað hjarta, milt og hlýtt, gagnvart hundinum góða.

Það verður spennandi að sjá, hvort hjartað slær fyrir ungviðinu, burðalitlum hreinkálfum, þegar á það reynir næst.

Sannur innri maður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfisráðherra, kemur þá fram.