Hvað er fólk eilíft að fokka yfir skýrslum og hagræðingarútreikningum á meðan það er einungis tvennt sem skiptir máli í þessu lífi? Það er hvort þú sofir vel eða ekki og hvað það er sem rekur þig fram úr. Allt hitt er og verður ekkert annað en tittlingaskítur.

Þessir útreikningar geta líka ruglað okkur í ríminu því við förum að hlusta á sérfræðinga með spekingslegan svip tala um það hvernig sýsla má með þorskígildistonn sem afvegaleiðir okkur í þá trú að jafnvel sé til eitthvert ígildi fyrir alla skapaða hluti einsog hreina samvisku og lífsneista. En staðreyndin er sú að ef þú hefur selt eða tapað þessu tvennu þá eru ekki til þeir fjármunir, né föngulegir fýrar eða frúr sem getað bætt þér það tap upp. Annaðhvort ertu með’etta eða ekki.

Eins er baunatínsla og hagræðingarárátta hættuleg því þær færa okkur í sanninn um að okkur væri best borgið ef við byggjum í sama bæjarfélaginu og ynnum öll hjá Amazon. En það vantar í þá útreikninga að þá myndu of margir þurfa að láta nauðina reka sig fram úr á morgnana og slíkt er ólíðandi í samfélagi sem skilur tilgang lífsins. Hann er einfaldlega sá að sofa svefni hinna réttlátu og rjúka síðan fram úr fullur eftirvæntingar gagnvart deginum sem er að renna upp.

Hvaða snillingar voru það eiginlega sem fóru að flækja þetta eitthvað? Ekki veit ég hvernig þeir sofa eða hvort þeir hafi excel-skjölin undir koddanum en hitt veit ég að þeir hafa farið öfugum megin fram úr.