Eftir hrun íslensku krónunnar og bankakerfisins árið 2008 knúðu háværar kröfur flokksmanna og annarra um upptöku evru og aðild að ESB forystu Sjálfstæðisflokksins, sem fram að því hafi ávallt talið ótímabært að taka ESB aðild á dagskrá, til að opna á umræðu um málið. Í nóvember 2008 var sett á fót Evrópunefnd Sjálfstæðisflokksins og henni falið að yfirfara stefnu flokksins í Evrópumálum. Kristjáni Þór Júlíussyni og Árna Sigfússyni var falið að stýra vinnunni. Sjö málefnahópar störfuðu og viðurkenndir sérfræðingar fengnir til ráðuneytis á hverju sviði. Fjöldi sjálfboðaliða tók þátt í starfinu og vel sóttir opnir fundir haldnir víða um land.

Í nóvember 2008 var orðræðan á þá leið að með Evrópunefndinni væri Sjálfstæðisflokkurinn að setja af stað vinnu við að skilgreina samningsmarkmið sem flokkurinn myndi leggja áherslu á í aðildarviðræðum við ESB. Sérfræðingar og aðrir gengu til þessa verkefnis í góðri trú og skýrslan er vönduð að gerð og áhugaverð. Dregnar eru upp sviðsmyndir og greinilegt að yfirgnæfandi áhugi er fyrir því innan flokksins að láta reyna á aðild og þá fyrst og fremst vegna gjaldmiðilsmála.

Endurreisn á nýjum grunni

1. desember 2008 birtist grein í Fréttablaðinu undir fyrirsögninni Endurreisn á nýjum grunni eftir þingmennina Bjarna Benediktsson og Illuga Gunnarsson. Þeir telja skynsamlegt „að fara að nýju yfir það hagsmunamat sem ráðið hefur afstöðu Sjálfstæðisflokksins til þessa, með sérstaka áherslu á framtíðarstefnu í peninga- og gjaldmiðilsmálum“. Þeir bæta við: „Verði það niðurstaða endurmats Sjálfstæðisflokksins að hagsmunum þjóðarinnar sé enn betur borgið utan ESB væri það engu [að] síður mjög í samræmi við ríka lýðræðishefð í Sjálfstæðisflokknum að láta málið ganga til þjóðarinnar í kjölfar viðræðna, þar sem ítrustu hagsmuna hefur verið gætt.“

Í skýrslu Evrópunefndarinnar, sem var lögð fyrir landsfund flokksins í lok mars 2009, er hagsmunamatið yfirfarið en fram kemur að ekki hafi náðst niðurstaða, skiptar skoðanir hafi verið á lofti, en skýrslan ber samt með sér að afgerandi meirihluti þeirra sem komu að starfi nefndarinnar hafi verið því fylgjandi að taka upp evru í stað krónu og að raunhæfasta leiðin til þess væri innganga í ESB. Fulltrúar stórútgerðarinnar lögðust hins vegar þverir gegn þessu og ljóst er að raunverulegt hagsmunamat varðandi Evrópustefnu Sjálfstæðisflokksins fer fram í Borgartúni en ekki Valhöll.

Sjálfstæðið eða sjávarútvegurinn?

Á landsfundinum var síðan lítið gert með skýrslu Evrópunefndarinnar og henni nánast stungið undir stól. Ályktun fundarins kvað á um að ekki skyldi aðeins bera niðurstöður aðildarviðræðna undir þjóðaratkvæði heldur skyldi þjóðin kjósa um hvort yfirleitt yrði gengið til viðræðna.

Þessi flétta var bersýnilega ætluð til að bregða fæti fyrir aðildarviðræður og drepa málinu á dreif. Augljóslega myndu alþingiskosningarnar í apríl 2009 að verulegu leyti snúast um hvort sækja ætti um aðild að ESB og fullkominn óþarfi að efna til sérstakrar þjóðaratkvæðagreiðslu um ekki neitt, en fyrr en aðildarsamningur liggur fyrir er ekkert til að kjósa um.

Segja má að þarna hafi Sjálfstæðisflokkurinn afsalað sér forystuhlutverki í utanríkismálum, ekki bara lagt niður árar hvað varðar þátttöku Íslands í fjölþjóðlegu samstarfi heldur beinlínis farið að róa í öfuga átt. Hörður Unnsteinsson, stjórnmálafræðingur, greinir ástæðurnar fyrir andstöðu Sjálfstæðisflokksinsvið ESB aðild í BA ritgerð sinni frá 2013, Sjálfstæðið eða sjávarútvegurinn? Færir hann rök fyrir því að fjárhagsleg tengsl flokksins og einstakra þingmanna hans við sterk fyrirtæki í sjávarútvegi séu lykilástæða andstöðu flokksins við ESB aðild. Sögulega eru þau tengsl mun meiri en hjá öðrum stjórnmálaflokkum.

Afdrifarík varðstaða um sérhagsmuni

Ég hef rætt við ýmsa sem komu að gerð skýrslu Evrópunefndar Sjálfstæðisflokksins. Einn viðmælandi minn sagði miklar væntingar hafa verið í byrjun um stefnubreytingu Sjálfstæðisflokksins en fljótlega hafi orðið ljóst að fátt myndi breytast. Orðræða forystunnar gegn ESB hafi harðnað eftir því sem á leið. Sterkir hagsmunahópar, sem einatt ráði för í flokknum, hafi hert tök sín. Meðal annars hafi Bjarna Benediktssyni orðið ljóst að hann ætti litla möguleika í formannskjöri færi hann ekki eindregið gegn ESB-aðild, sem hann gerði – og var kosinn.

Annar sagði að í ESB málinu hefði Sjálfstæðisflokkurinn gert það sem hann geri best, það það sem hann geri ávallt þegar þjóðin kallar eftir breytingum sem skaðað geti sérhagsmuni sterkustu bakhjarla flokksins. Lýst sé áhuga á að taka þátt og ná fram þeim breytingum sem kallað sé eftir. Þegar niðurstaða nálgist sé dregið úr og gjarnan sagt að skoða þurfi mál betur, ekki megi flana að neinu. Lagðar til fléttur til að tefja eða afvegaleiða mál. Dæmi um þetta séu veiðigjöld, stjórnarskrá, nú síðast sóttvarnalög og ekki síst ESB málið eftir hrun. „Þetta er alltaf það sama, þykjast vilja og taka þátt alveg þar til á ögurstundu. Þá er gripið í handbremsuna. Allt til að þjóna stórútgerðinni.“

Þessi harða afstaða gegn ESB klauf að lokum Sjálfstæðisflokkinn og leiddi til stofnunar Viðreisnar. Sjálfstæðisflokkurinn, sem frá stofnun 1929 og fram á þessa öld var yfirleitt með 35-40 prósent kjörfylgi í þingkosningum, hefur frá 2009 jafnan legið í kringum 25 prósenta múrinn sem líkast til endurspeglar þá staðreynd að varðstaða um sérhagsmuni og skeytingarleysi gagnvart heildarhagsmunum hefur kostað flokkinn þriðjung fylgis hans.

Höfundur er hagfræðingur