Skilaboð ráðandi afla við ríkisstjórnarborðið eru skýr: blásum glæðum í verðbólgubálið, gerum heimilunum erfiðara um vik að ná endum saman, sem eykur enn frekar á vaxtabyrðina svo hvorki unga fólkið né aðrir landsmenn eigi möguleika á að verða sér úti um húsnæði á viðráðanlegum kjörum, en það hægir vitaskuld á smíði nýrra íbúða og leggur stein í götu verktaka.
Skýrari geta skilaboðin ekki verið.
Lamandi hönd hins opinbera er að herða tök sín á samfélaginu.
Gjaldahækkunarhrina hins opinbera lýsir eindregnum ásetningi; eldsneytisgjaldið er hækkað, bifreiðagjöldin eru hækkuð og áfengisgjaldið er hækkað, allt á sama tíma – og allt í þágu ríkissjóðs sem á með þessum hætti að hafa tólf milljarða af alþýðu fólks sem margt hvert nær ekki endum saman sakir óheyrilegra verðhækkana á mat og lyfjum, húsnæði og öðrum nauðsynjum.
Þar fyrir utan hefur ríkið engan áhuga á að halda aftur af verðþenslunni á landbúnaðarvörum, þótt það hafi stjórntæki til þess arna.
Það skal öllu velt út í verðlagið. Gömlu víxlverkun kaupgjalds og verðlags skal hleypt eins og stirðbusalegum beljum út á tún.
Viðvarandi vaxtahækkanir, sem virðast vera einu viðbrögðin við endalausum gjaldskrárhækkunum, munu svo leiða til hækkunar á vísitölu neysluverðs, en æ meiri dýrtíð á húsaleigumarkaði vegur þar þungt, þrátt fyrir að húsnæðisverð sé farið að lækka. Hringavitleysan á Íslandi snýst af gamalkunnu stjórnleysi.
Á sama tíma er engin viðleitni til að gæta hófs í ráðningum og kjarabótum. Þvert á móti sogar ríkisvaldið til sín mannskap úr einkageiranum sem getur ekki lengur keppt við ríkisfyrirtæki um laun og kjör.
Nú er svo komið að einkaframtakið á Íslandi efnir til ráðstefnu með einkar lýsandi nafngift yfir stöðu mála á Íslandi: Er ekki bara best að vinna hjá ríkinu?
Og svarið er jú! Og það er vegna þess að það er búið að snúa öllu á hvolf í landinu.
Ríkið, sem áður gekk á undan með góðu fordæmi í aðhaldi og sparnaði, dregur nú bæði launavagninn á harðaspretti og fjölgar í liði ríkisstarfsmanna sem aldrei fyrr.
Einkageirinn horfir gáttaður upp á þessi umskipti, en honum er svarað því einu að svona hátti bara til í samfélaginu, eftir faraldurinn og niðursveifluna sem honum fylgdi sé eðlilegt að launafólk leiti ásjár og öryggis hjá fyrirtækjum hins opinbera sem aldrei þurfa að hagræða, hvað þá að segja upp fólki, eins og blasir við á berangri einkarekstursins.
Svona er nú komið fyrir vinstristjórn Sjálfstæðisflokksins.