Eitt af við­varandi við­fangs­efnum stjórn­málanna er að af­marka hlut­verk ríkisins. Hvar skiptir máli að ríkið komi að málum og á hvaða sviðum er rétt að eftir­láta hinum frjálsa markaði að sinna verk­efnum. Það eru engar fréttir að hér er armur ríkisins víða langur saman­borið við ná­granna­ríki okkar. Þetta sést ekki síst í banka­kerfinu, þar sem eignar­haldið er það lang um­fangs­mesta í Evrópu.

Aftur á móti vill oft gleymast að það þurfti eigin­legar ham­farir á fjár­mála­mörkuðum heimsins til að valda því að ríkið endaði sem helsti eig­andi ís­lenska fjár­mála­kerfisins að nýju. Það stóð heldur aldrei til að það yrði raunin til lengdar. Eftir endur­gerð reglu­verks og stofnana og ára­tug af efna­hags­legri endur­reisn er löngu tíma­bært að af­marka hlut­verk ríkisins upp á nýtt.

Í upp­hafi kjör­tíma­bilsins sögðumst við ætla að draga úr á­hættu skatt­greið­enda í banka­rekstri og koma á heil­brigðara sam­keppnis­um­hverfi, í betri takti við Norður­löndin og önnur ná­granna­ríki okkar. Í gær lauk fyrsta á­fanganum í því verki með sölu á 35 prósenta hlut í Ís­lands­banka í opnu út­boði.

Ní­föld um­fram­eftir­spurn var í út­boðinu og hlut­hafar verða um 24 þúsund, fleiri en í nokkru öðru skráðu fé­lagi á ís­lenskum markaði. Þátt­taka al­mennings var á­berandi mikil, en við heimiluðum kaup allt niður í 50 þúsund krónur og létum á­skriftir fólks allt að einni milljón ó­skertar. Við það bætast sterkir horn­steins­fjár­festar; ís­lenskir líf­eyris­sjóðir auk stórra og traustra er­lendra aðila. Salan fer fram á hag­stæðum tíma á markaði og sölu­and­virðið upp á um 55 milljarða króna mun nýtast vel í á­fram­haldandi upp­byggingu næstu misseri.

Ó­hætt er að full­yrða að út­boðið hafi tekist vel. Það sést ekki að­eins í mikilli þátt­töku, dreifðu eignar­haldi og góðu verði. Ein mikil­vægasta á­minningin liggur annars staðar. Niður­staðan sendir skýr skila­boð um að okkur er ó­hætt að sleppa í ein­hverjum til­fellum takinu og hleypa sam­keppnis­rekstri úr allt­um­lykjandi faðmi hins opin­bera. Ríkið er ekki upp­haf og endir alls. Fyrir­tækja­rekstri er ó­hætt í höndum fólks úti í sam­fé­laginu, en ekki bara í Stjórnar­ráðinu.