Kristrún Frostadóttir verður að öllum líkindum næsti formaður Samfylkingarinnar, en mögulega verður hún ein í leiðtogakjöri flokksins á hausti komanda.

Stuðningsmenn hennar gera sér vonir um að Kristrún geti reist fylgi flokksins til gamalkunnra hæða, enda beri hún með sér ferskan tón í bland við orðfimi og óttaleysi frammi fyrir flóknum úrlausnarefnum.

Og ekki skal dregið í efa að Kristrún er glæsilegur fulltrúi nýrrar kynslóðar í íslenskum stjórnmálum. Það er gild ástæða fyrir því að hún er oftar fengin í viðræðuþætti um þrætuepli þjóðmálanna en aðrir stjórnmálamenn á hennar reki. Þar svarar hún enda af viti og festu.

En hver er pólitík Kristrúnar Frostadóttur? Það er stóra spurningin í íslenskri pólitík nú um stundir. Og full þörf er á því að svarið liggi fyrir á næstu vikum áður en hún tekur við valdataumunum í helsta jafnaðarmannaflokki landsins, fylkingu sem ætlar sér að leiða næstu ríkisstjórn Íslands, að fyrirmynd reykvískra stjórnmála.

Kristrún þarf að tala skýrar og víðar í sinni pólitík en hún hefur gert til þessa. Hún þarf að gefa upp pólitíska stefnu sína í mörgum mikilvægum málaflokkum – og það án nokkurra vífilengja.

Og þess er nú beðið að hún gefi með afgerandi hætti upp afstöðu sína í Evrópumálum, þar á meðal hvort hún sé eindreginn talsmaður Evrópusambandsaðildar og upptöku evrunnar. Hún þarf líka að tala undanbragðalaust um viðhorf sín til umhverfismála, svo sem hvernig stjórnvöld og atvinnulíf eigi að takast á við loftslagsvána. Og hvernig sér hún fyrir sér frumlag og andlag orkuskiptanna? Þá er vert að hún upplýsi sjónarmið sín í húsnæðismálum, hvernig taka eigi á þeim brýna vanda sem þar blasi við, á tímum þegar ungs fólks bíður það eina hlutskipti að steypa sér í ævilanga og íþyngjandi greiðslubyrði fyrir þá einu sök að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Og hún þarf auðvitað líka að gefa upp sína pólitísku sýn á arðrán sjávarauðlindanna og með hvaða hætti undið verði ofan af því gegndarlausa óréttlæti.

Loks þarf Kristrún að svara þeirri meginspurningu íslenskra stjórnmála hvernig aukinn jöfnuður verði tryggður hér á landi, ekki bara í launum og kynjabaráttu, heldur til náms og heilsu og þátttöku í samfélaginu.

Það er liðin tíð að stjórnmálaforingjar geti komist til valda án þess að upplýsa fyrir hvað þeir standa í pólitík.