Það er mat allra sem á annað borð hafa skoðun á sótt­vörnum og hve far­sæl­lega hefur tekist til í þeim efnum, að góð upp­lýsinga­gjöf til al­mennings hafi skipt sköpum. Því sé ekki síst að þakka hve upp­lýstir í­búar Ís­lands séu um stöðu far­aldursins hverju sinni, hve vel hefur gengið bæði að halda far­aldrinum niðri, tryggja góða fram­kvæmd sótt­varna og al­menna sátt um stefnu stjórn­valda í bar­áttu við far­aldurinn.

Af ein­hverjum á­stæðum virðast nú hafa orðið ein­hver þátta­skil og sam­staðan vera á leiðinni í skrúfuna. Annars vegar upp­lifir fólk ekki lengur að gegn­sæi ríki um nú­verandi eða væntan­legan bólu­efna­forða landsins. Það treystir ekki lengur upp­lýsingum stjórn­valda um stöðu bólu­setninga og hvort mark­mið þar að lútandi séu raun­hæf. Hins vegar eru á­höld um hver séu í raun og veru helstu mark­mið sótt­varna­yfir­valda með nú­gildandi að­gerðum vegna far­aldursins, bæði innan­lands og á landa­mærum. Í upp­hafi far­aldurs­ins var mark­miðið að „fletja út kúrfuna“ og halda veikindum í nægi­lega miklum skefjum til að verja heil­brigðis­kerfið fyrir hol­skeflu sjúk­linga. Þá höfðum við á­hyggjur af því að sjúkra­húsin myndu fyllast og hvort við ættum nægi­lega margar öndunar­vélar. Nú virðist mark­miðið vera að koma alveg í veg fyrir að smit berist til landsins, ýmist til að unnt sé að slaka á tak­mörkunum innan­lands eða til að hefta út­breiðslu ill­skeyttari af­brigða veirunnar.

Um þetta eru stjórn­völd ekki að tala einum rómi, eða í öllu falli ekki eins skýrt og þau gerðu síðasta vor. Þá stóðum við öll saman. Við vorum öll al­manna­varnir, ferðuðumst innan­húss og hlýddum Víði. Nú er hver höndin uppi á móti annarri.

Héraðs­dómur hefur kveðið upp úr um að stjórn­völdum sé rétt og skylt að grípa til að­gerða vegna heims­far­aldursins. Í úr­skurðum hans er ekki efast um að mann­réttindi geti þurft að víkja þegar lífi og heilsu borganna er ógnað. Að­gerðir stjórn­valda þurfi hins vegar að lúta lög­málum meðal­hófs og jafn­ræðis. Grund­vallar­for­senda þess að meðal­hófs sé gætt er að mark­mið að­gerða sé skýrt. Annars vegar þurfa að­gerðir að vera til þess fallnar að ná því mark­miði sem stefnt er að. Hins vegar mega þær ekki ganga lengra hverju sinni en nauð­syn­legt er til að mark­miði þeirra verði náð.

Fáir efast um að mark­mið sótt­varna­yfir­valda séu göfug, mikil­væg og í þágu lífs og heilsu þjóðarinnar. Það dugar hins vegar ekki. Þau þurfa að vera skýr og ein­beitt. Skýr mark­mið sem öllum eru kunn eru for­senda sam­stöðu um sótt­varna­að­gerðir á hverjum tíma. Skerði að­gerðirnar stjórnar­skrár­varin réttindi borgaranna, eru skýr mark­mið einnig lykil­for­senda lög­mætis þeirra.

Gegn­sæi er okkar allra besta vopn í þessari bar­áttu en að sama skapi það van­metnasta.

Nú verða ráð­herrar ríkis­stjórnarinnar og önnur sótt­varna­yfir­völd að stíga fram og eiga ein­lægt sam­tal við íbúa landsins. Ekki draga neitt undan um fyrir­sjáan­legan bólu­efna­forða þjóðarinnar og tala einum rómi um mark­mið þeirra í­þyngjandi að­gerða sem bæði við og gestir okkar þurfum að sæta.