Við sem skipum lista Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi viljum fara raunhæfa og skynsama leið í byggingu nýs leikskóla. Vilji okkar stendur til þess að hefjast handa strax í júní við lokaútfærslu nýrrar leikskólabyggingar á Ráðhúsreit í nánu samráði við fagfólk og stjórnendur leikskólans. Við gerum ráð fyrir að ný leikskólabygging þjóni 150 –180 börnum, að þar verði starfsaðstaða til fyrirmyndar og að hún verði tilbúin í lok árs 2024.
Vert er að hafa í huga að með fyrirhugaðri 1.200–1.400 fm byggingu eykst vinnurými til muna en til samanburðar eru Mánabrekka og Sólbrekka samtals um 1.300 fm. Nánar tiltekið er því um tvöföldun á núverandi vinnurými leikskólans að ræða á þessum stað og mun starfsemin þá öll rúmast á einum reit. Samhliða verður ráðist í endurbætur á Mánabrekku og Sólbrekku og aðbúnaður bættur í takt við nútímakröfur um vinnuaðstöðu og leikrými. Með stækkuninni verður jafnframt hægt að veita börnum frá 12 mánaða aldri leikskólavist.
Þar til nýr leikskóli opnar ætlum við að fjölga valkostum með heimgreiðslum þar til börn fá leikskólavist eða pláss hjá dagforeldri. Sjálfstæðismenn hafna alfarið hugmyndum annarra frambjóðenda í bænum um íbúðabyggð á þessum reit enda börnin í forgangi.
Fram undan eru bjartir tímar fyrir Seltjarnarnesbæ með nýrri blandaðri byggð úti við Gróttu, byggingu leikskóla, auknu upplýsingaflæði og auknu samtali við bæjarbúa.
Dagbjört skipar 5. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi. Þór er oddviti flokksins í sveitarfélaginu.