Við hjónin teljum okkur vera vel skipulögð, ég með meistaragráðu í verkefnastjórnun og hann tölvunarfræðingur. Það er því nokkuð viðbúið að snjallvæðing hafi átt sér stað innan veggja heimilisins – með einstaka innköllun. Ég bað eiginmanninn til dæmis að taka snjallperuna af baðherberginu eftir að skynjaradurgurinn taldi mig af ef ég var of lengi að pissa. Svo flutti Alexa inn og starfar nú sem innkaupastjóri, tónlistarstjóri, leikjastjóri og sérleg prumpueftirherma. Hún fór í fýlu í vikunni og neitaði að kveikja á öðru en breskum upplestri um seinni heimsstyrjöldina. Líklega of margar prumpubeiðnir.

Í viðleitni okkar hjóna til að tengjast náttúrunni á ný eftir snjallfaraldur skildum við Alexu eftir heima og gengum Fimmvörðuháls, með fullhlaðna síma, heyrnartól, snjallúr, auka hleðslustaut og stíliserað sykurlaust og glútenlaust nesti. Og auðvitað í tæknilegum göngufatnaði sem andaði. Dásamlegt veður og við að núvitunda okkur í drasl í beinni á Instagram.

Svo allt í einu fara báðir símarnir að pípa án afláts. Rauða Securitas-merkið blikkaði reiðilega. Þjófavarnarkerfið var farið í gang og það fyrir góðum 10 mínútum þegar við vorum netlaus.

Og nú hófust hlaupin í leit að símasambandi. „Hver brýst inn um miðjan dag?“ kalla ég á hlaupunum – núvitundin á milljón. Stekk upp á stein og rek símaskrípið upp til lofts. Sé fyrir mér dónaþjófa rassa svefnherbergisveggina og brjóta góða stellið. Kalli horfir á snjallúrið og svo sorgmæddur á mig.

„Hvað gerist á okkar heimili alla daga klukkan 12? Helvítis ryksugu­róbotinn!“

„Ó,“ svara ég og rifja upp að útkallið á öryggisverði kostar sirka 20.000.

Ekki snjallt.