Þann 31. ágúst hélt Sorgarmiðstöð ráðstefnu sem bar yfirskriftina „skyndilegur missir.“ Þar var sjónum beint að því þegar ástvinur er úrskurðaður látinn utan heilbrigðisstofnunar. Hér er átt við missi meðal annars vegna slysa, skyndilegra veikinda, sjálfsvíga, lyfjatengdra andláta og andláta á meðgöngu.

Markmiðið með ráðstefnunni var að skapa umræðuvettvang og svara spurningunni: Getum við gert betur fyrir þau sem missa ástvin skyndilega? Skyndileg andlát eru án fyrirvara, koma þvert á tilveru þeirra sem eftir standa, sem upplifa áfall, sorg og hjálparleysi á sama tíma og takast gjarnan á við flókna sorg í kjölfarið.

Erindi ráðstefnunnar voru fjölbreytt en fjallað var um tölur og staðreyndir og kom í ljós að á annað hundrað skyndileg dauðsföll verða á ári hverju. Rætt var um aðkomu viðbragðsaðila á vettvangi, fjallað var um sálræna skyndihjálp, mikilvægi sorgarúrvinnslu og viðbragðsáætlun á vinnustað í kjölfar skyndilegs andláts.

Umfjöllun var líka um sorgarorlof fyrir einstaklinga sem misst hafa barn og aðstandandi deildi reynslu sinni af skyndilegum missi. Síðasta erindi ráðstefnunnar sneri að hugmyndafræði og stöðu á þjónustu Sorgarmiðstöðvar um verkefnið Hjálp48.

Í verkefninu felst að veita syrgendum viðeigandi stuðning innan við 48 klukkustundum frá skyndlilegum missi. Í starfi Sorgarmiðstöðvar hefur ítrekað komið fram að vöntun er á slíkri þjónustu við syrgjendur. Sorgarmiðstöð vill svara þessari þörf og vinna að því að syrgjendum standi til boða viðeigandi stuðningur innan 48 klukkustunda frá skyndilegum missi.

Ljóst er að allir sem koma að því að styðja syrgjendur þurfa að sameinast um hvernig best er að veita þennan bráðastuðning til syrgjenda. Erindin sem flutt voru á ráðstefnunni eru innlegg í það samtal og þá mikilvægu vinnu sem fram undan er í að byggja upp viðeigandi stuðning við börn og fullorðna þegar verður skyndilegt andlát.

Ráðstefnan er nú aðgengileg á heimasíðu Sorgarmiðstöðva, á slóðinni: sorgarmidstod.is/utgefid-efni/erindi/.

Höfundur er fagstjóri Sorgarmiðstöðvar