Sturla frændi minn Sighvatsson var maður skyndilausna. Hann vildi ganga frá málum í hvelli og leysa þau með handafli. Verst var að Sturla var svo mikill sveimhugi að honum fataðist iðulega flugið og framkvæmdin snerist upp í andhverfu sína.Íslendingar trúa á skyndilausnir á öllum sviðum.

Samfélagið einkennist af endurteknum krísum sem þarf að leysa strax. Veðrið er ófyrirsjáanlegt. Allir bíða eftir áður óþekktum náttúruhamförum í Kötlu, Heklu eða jafnvel Hengli. Krónan sveiflast upp og niður eins og fimleikamaður á stökkbretti. Fólk er stöðugt að glíma við óvænt atvik sem þarf að bregðast við.

Samfélag sem einkennist af óvæntum uppákomum býður ekki upp á langtímaskipulagningu.

Smálánafyrirtæki blómstra. Margir leysa skammtímavanda með smáláni sem síðan vex eins og púki á fjósbita. Kóvíð 19 er eins og hver önnur farandplága sem þarf að losa sig við. Hraðbólusetning er eina leiðin. Lítið fer fyrir þeim sem mótmæla bóluefni. Megrunaraðgerðir eiga að vera fljótvirk átaksverkefni. Menn hlaupa eftir töfrakúrum til að leysa vandann fyrir jól.

Magaermi með fjölmörgum ævilöngum fylgikvillum er orðin að skyndilausn vegna offitu. Fjöldi skurðlækna í nágrannalöndunum bjóða upp á þessar aðgerðir án nokkurs undirbúnings. Mikill fjöldi fólks stefnir að miklu ríkidæmi með Bitcoin-æðinu.

Fyrir hrun ætluðu allir að verða ríkir á hlutabréfum.Kannski liggur í þjóðareðlinu að leita stöðugt eftir skyndilausnum. Langtímalausnir eru tímafrekar og venjulega leiðinlegar. Íslendingar hafa frá alda öðli vanist því að þurfa að leysa daglega stórar og smáar krísur.

Hvatvísi er dyggð. Menn muldra ofan í bringuna að þetta reddist allt saman og drífa í hlutunum. Það er smá sveimhuga Sturla í okkur öllum.