Ís­land er að stimpla sig inn í hugum ferða­manna sem dýrasta land í Evrópu – og þótt víðar væri leitað um álfur og alla kima heims­kringlunnar. Og enda þótt dýr­tíðin hér á landi hafi verið þekkt um nokkra ára­fjöld – og það langt út fyrir land­steinana – hefur ó­hófið í verð­lagningunni jafnan verið í námunda við önnur dýr­keyptustu ferða­manna­löndin í heimi hér.

En nú er að verða breyting á. Eftir margra missera kreppu far­sóttar­tímans er Ís­land að stökkva fram úr öðrum dýrustu löndunum í græðgi og ó­gegnd, svo sem Noregi sem löngum hefur verið á pari við Ís­land hvað okrið varðar.

Frétta­blaðið hefur á undan­förnum dögum birt fréttir af því að verð­lagning á nokkrum viða­mestu þáttum ferða­þjónustunnar, svo sem hótel­gistingu og bíla­leigum, er að nálgast slíkar himin­hæðir að önnur helstu fésugu­l­öndin eru að verða hálf­drættingar á við Ís­land.

Og hér tala tölur enga tæpi­tungu. Nætur­gisting á fjögurra stjörnu hóteli í Reykja­vík kostar meira en tvö­falt það sem sam­bæri­leg hótel á besta stað í mið­borg Osló heimta af ferða­manninum á háanna­tíma. Það sama á við um bíla­leigur. Hægt er að leigja nú um stundir hefð­bundinn fólks­bíl í Noregi á helmingi lægra verði en á Ís­landi.

Og hrökkva menn þó í kút yfir ó­hæfunni í Noregi.

„Er ætlunin að ógna orð­spori Ís­lands sem á­huga­verðs á­ætlunar­staðar með gegndar­lausri verð­bólgu ...“

For­kólfar ferða­þjónustunnar á Ís­landi verða að fara að hugsa sinn gang í þessum efnum. Er ætlunin að ógna orð­spori Ís­lands sem á­huga­verðs á­ætlunar­staðar með gegndar­lausri verð­bólgu, svo ó­stjórn­legri að fara verður að af­skrifa stærstan hluta ferða­manna hingað til lands, sjálfan milli­tekju­hópinn, sem jafnan hefur verið hryggjar­stykkið í túr­is­ta­flórunni hér á landi?

En vandinn er víð­tækari. Þjónustan hér á landi er oft og tíðum lé­legri en gengur og gerist í þeim löndum sem verð­leggja sig sem helstu lúxus-á­fanga­staði heimsins.

Hjá nokkrum smærri bíla­leigum landsins, þar sem lukku­riddararnir ráða ríkjum í skjót­gróða­hugsuninni einni saman, er verið að leigja bíla sem eru hátt í tíu ára gamlir og eknir 200 þúsund kíló­metra, svo sem dæmin sanna. Og kunnar eru sögurnar af bilunum þessara bíla, þegar leigu­takarnir hafa þurft að panta dráttar­bíl og sitja svo sjálfir uppi með kostnaðinn af klúðrinu, á þriðja hundrað þúsund krónur.

Þetta eru dæmi­sögurnar sem heyrast frá Ís­landi. Og berast út um allan heim. Spurningin er þá líka sú hve­nær komið verður að skulda­dögum?