Ísland er herlaust land. Engu að síður er stundaður linnulaus hernaður hér á landi. Linnulaus hernaður gegn almenningi og atvinnulífinu í landinu.

Íslensk stjórnvöld herja á eigin þjóð. Um hernaðinn sér peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands.

Vopnið er íslenska krónan. Henni er markvisst beitt gegn almenningi og atvinnulífinu í landinu.

Í vikunni hækkaði Seðlabankinn stýrivexti um heilt prósentustig og hafa þeir nú fimmfaldast á einu ári, eru miklu hærri en í nágrannalöndum okkar þrátt fyrir að verðbólga sé þar áþekk og hér, og í mörgum tilfellum hærri.

Flestir seðlabankar í Evrópu halda vöxtum lágum, jafnvel í núlli. Kljást þeir þó við hækkanir húsnæðisverðs og innflutta verðbólgu rétt eins og sá íslenski.

Evrópskir seðlabankar vita að miklar vaxtahækkanir eru vita gagnslausar við svona aðstæður – raunar verri en gagnslausar. Þær eru stórskaðlegar. Seðlabanki Evrópu herjar ekki gegn almenningi og atvinnulífi eins og sá íslenski.

Vaxtahækkanir Seðlabankans undanfarið ár soga tugi milljarða á hverju ári frá heimilum og 150 milljarða á ári frá atvinnufyrirtækjum til fjármálakerfisins.

Í vikunni skiluðu stóru íslensku bankarnir uppgjöri fyrir fyrsta ársfjórðung. Íslenskir bankar hagnast gríðarlega mikið þrátt fyrir að vera á flesta mælikvarða vondir bankar í alþjóðlegum samanburði.

Bankarnir eru vondir bankar vegna þess að hér á landi vantar nauðsynlega samkeppni á þeirra markaði. Krónan sér til þess. Erlendir bankar vilja ekki starfa á örmyntarsvæði íslensku krónunnar.

Taglhnýtingar öflugra sérhagsmuna fjármálakerfis og stórútgerðar lofa krónuna sem hornstein hagsældar en þjóðin sér í gegnum slíkan málflutning. Hún veit betur. ■