Einkennilega lítil umræða hefur skapast um vanhæfi hæstaréttardómara frá því á hrunárunum fyrir áratug, jafnvel þó um sé að ræða einn alvarlegasta misbrest í störfum æðsta dómstigs þjóðarinnar frá því það var sett á laggirnar fyrir einni öld og ári betur.

Á þessum tíma fengu níu hæstaréttardómarar tækifæri til að svara fyrir um fjárhagsleg tengsl sín við föllnu bankana áður en þeir tóku sjálfir til við að dæma mann og annan fyrir gáleysislega stjórn á helstu peningastofnunum landsins. Fjórir svöruðu, en fimm ekki.

Eftirmálin eru blettur á sögu Hæstaréttar.

Í hópi þeirra sem svöruðu ekki voru einmitt dómararnir sem áttu mestu fjárhagslegu hagsmunanna að gæta – og töpuðu fyrir vikið mestu á falli bankanna. Þeir sátu á þeim upplýsingum á meðan þeir dæmdu hvern sakborninginn í bankahruninu af öðrum í fangelsi.

Jón Steinar Gunnlaugsson, einn þeirra fyrrverandi hæstaréttardómara á þessum tíma sem svöruðu til um fjárhagsleg tengsl sín við gömlu bankana, hefur margsinnis gagnrýnt kollega sína frá þessum tíma – og það harðlega. Þar hefur hann reynst hrópandinn í eyðimörkinni. Hann hefur staðið einn með pennann að vopni til að vekja athygli á því að Hæstiréttur Íslands var að stórum hluta vanhæfur til að takast á við þetta einstaka, sögulega og vandmeðfarna mál í réttarsögu landsins.

Og hvers vegna skyldu aðrir hæstaréttarlögmenn fara hér með veggjum og gera upp við þessa sögu með þögninni einni saman? Má vera að löngun þeirra í dómarasæti sé gagnrýninni yfirsterkari? Vilja þeir ekki rugga bátnum af ótta við að fá ekki stjórnað honum?

Þetta eru eðlilegar spurningar. Og nauðsynlegar.

Hæstiréttur Íslands er ein meginstoðanna í regluverki Íslands. Trúverðugleiki hans skiptir sköpum í réttarríkinu. Þeir landsmenn sem setjast þar á sakabekk eiga heimtingu á að dómarar réttarins starfi þar af heilindum og upplýsi í öllum tilvikum hvort þeir tengist á einhvern hátt þeim dómsmálum sem tekin eru fyrir hverju sinni.

Því var ekki að heilsa fyrir áratug. Þá réð leyndarhyggjan ríkjum.

Og það er skammarlegt.

Í uppgjöri bankahrunsins hefur þessi þáttur ekki fengið það vægi sem hann á skilið. Og það er ef til vill vegna þess að það hefur ekki verið til siðs að gjalda varhug við hlutdrægni þessa æðsta dómstigs þjóðarinnar.

Sagan sýnir aftur á móti að það er full ástæða til að draga áreiðanleika hans í efa.