Össur Skarp­héðins­son, fyrr­verandi utan­ríkis­ráð­herra og for­maður Sam­fylkingarinnar greinir kosningarnar í færslu á Face­book í vikunni. Niður­staðan er að skrímsla­deild Sjálf­stæðis­flokksins sé lík­lega sigur­vegari kosninganna. Henni hafi tekist að skjóta Gunnari Smára niður fyrir lág­markið svo Sósíal­ista­flokkurinn kom ekki mönnum á þing. Skrímsla­deildin hafi einnig náð að klekkja tíma­bundið á Krist­rúnu Frosta­dóttur hjá Sam­fylkingunni og skaðað Við­reisn – reyndar með góðri að­stoð. Þar á Össur vitan­lega við furðu­leg um­mæli seðla­banka­stjóra, sem af­flutti til­lögur Við­reisnar í gjald­miðils­málum. Össur bendir á að út­færsla tíma­setninga sé „at­hyglis­verð – og frá tækni­legu sjónar­miði lík­lega ó­að­finnan­leg. Menn með ára­tuga­reynslu að störfum....“

Sjálf­stæðis­flokkurinn segist vera flokkur at­hafna­frelsis, lágra skatta, einka­fram­taks og fé­lags­legrar um­hyggju. Í kosninga­bar­áttu hamrar flokkurinn á stöðug­leika og varar við glund­roða, skatta­hækkunum, og vinstri slysum. Þarna fer illa saman hljóð og mynd. Sjálf­stæðis­flokkurinn er ekki lág­skatta­flokkur í dag, og situr raunar í vinstri stjórn. Flokkurinn kallar reyndar veiði­gjöld „skatta“ og fallist menn á það má segja að Sjálf­stæðis­flokkurinn standi sig vel í að halda „sköttum“ lágum. Sú „skatta­lækkun“ nýtist sæ­greifum en ekki öðrum. Skatt­þrep stað­greiðslu voru lækkuð um síðustu ára­mót en per­sónu­frá­dráttur var jafn­framt lækkaður þannig að þeir launa­lægstu fengu enga skatta­lækkun. Veiði­gjöld lækkuðu hins vegar tals­vert vegna laga­breytinga nú­verandi ríkis­stjórnar.

Í raun hefur Sjálf­stæðis­flokkurinn í dag það hlut­verk helst að verja gífur­lega hags­muni sem stór­út­gerðin hefur af niður­greiddum að­gangi að fisknum í sjónum. Grunn­gildum sjálf­stæðis­stefnunnar hefur verið fórnað og hætt er við að gamlir foringjar flokksins sneru sér við í gröfinni sæju þeir hlut­skipti hans í dag.

Sjálf­stæðis­flokkurinn gengur ekki lengur til kosninga með grunn­gildi sín að vopni. Innatómum klisjum er slengt fram, stefnan skiptir ekki máli. Skrímsla­deildinni sleppt lausri. Sann­leikurinn er af­stæður. Til­gangurinn helgar meðalið. Sér­hags­munir stór­út­gerðarinnar skulu varðir. Össur er eldri en tvæ­vetur í pólitík og veit hvað snýr fram og aftur á pólitískri skepnu. Skrímsla­deildin vann þessar kosningar. Spurningin er hver vinnur stjórnar­myndunar­við­ræður?