Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands, sagði við Fréttablaðið.is fyrir ellefu mánuðum að hann teldi mikilvægt að „við byrjum að vinna heimavinnuna okkar og við byrjum að móta okkur þá stefnu hvernig við myndum helst vilja sjá vörnum Íslands fyrirkomið.“
Ekki hefur farið mikið fyrir þessari heimavinnu síðan þá en vandræðalegt andvaraleysi ríkisstjórnarinnar í varnarmálum þarf þó ekki að koma á óvart þar sem henni virðist hafa verið klastrað saman með þriggja þátta tonnataki almenns aðgerða-, áhuga- og prinsippleysis.
Baldur ýfði síðan fjaðrir íslenskra friðardúfna þegar hann sagðist telja „mikilvægt fyrir okkur að vera með litla fasta öryggissveit“.
Arnór Sigurjónsson heggur dýpra í sama knérunn um helgina og kastaði sprengju með bókinni Íslenskur her.
Hugmynd Arnórs hefur að vísu fallið, nánast þverpólitískt, í vægast sagt grýttan jarðveg þjóðar sem stærir sig, á tyllidögum jafnt sem virkum, af herleysi sínu og djúpstæðri friðarást.
Það breytir því þó ekki að ógnirnar eru víða og leynast ekki. Stríð geisar í Evrópu og kínverskir njósnabelgir sveima yfir himnum norðurskauts og netheima án þess þó að íslensk yfirvöld sjái neitt nema grín og glens á TikTok.
Og hver á að verja eftirsóttar lindir landsins, sem vel þjálfuð sveit málaliða gæti sjálfsagt yfirtekið á eins og einu eftirmiðdegi, þegar vatnið leysir olíuna af hólmi sem eftirsóttasti vökvi veraldar síðar á þessari öld?
Þúsund manna íslenskur her væri þá lítils megnugur, jafnvel þótt hann hefði sérsveit ríkislögreglustjóra og umferðarlögguna sér til fulltingis. Eina raunverulega gagnið sem fólgið er í hugmyndinni um íslenskan her er að hún kveikir hressilega umræðu sem vekur almennari áhuga á varnarmálum.
Annars er íslenskur her ekkert annað en svo góður brandari að enn bergmálar hlátur Vladimirs Zjirinovskij, hins nú dauða leiðtoga þjóðernissinna í Rússlandi, sem brást við íslenskum belgingi Jóns Baldvins Hannibalssonar, þá utanríkisráðherra, fyrir 30 árum þegar Ísland varð fyrst til að viðurkenna á ný sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna:
„Hvers vegna eruð þið í NATO, án þess að eiga svo mikið sem einn skriðdreka eða kafbát? Til hvers að vera í NATO? NATO bjargar ykkur aldrei. Með nokkrum tundurskeytum og loftárás er eyjan ykkar búin að vera.“
Eigum við að ræða þetta eitthvað?