Gríðarlegum fjárhæðum hefur verið varið af hálfu stórfyrirtækja og stjórnvalda ýmissa landa sem tengjast olíuviðskiptum til að tala loftslagsvísindi niður og draga þau í efa. Þetta minnir mjög á herferðir tóbaksframleiðenda á sínum tíma til að afvegaleiða fólk og telja því trú um að reykingar væru ekki hættulegar heilsu manna.

Steininn tók úr árið 2009, rétt fyrir COP15 loftslagsráðstefnu SÞ í Kaupmannahöfn, með svokölluðu Climategate. Brotist var inn í tölvupóstkerfi þekktra vísindamanna í háskólanum í Austur-Anglíu. Þaðan var stolið gögnum og þau birt opinberlega í röngu samhengi, þannig að skilja mátti að vísindamennirnir efuðust sjálfir um heilindi eigin rannsókna. Climategate hafði þau áhrif, að margra mati, að COP15 skilaði litlum árangri og enn var slegið á frest að horfast í augu við loftslagsvandann.

Í haust hlutu þrír loftslagsvísindamenn Nóbelsverðlaun í eðlisfræði; enn ein viðurkenning þess að loftslagsbreytingar af mannavöldum byggja á traustum vísindalegum grunni. Einnig liggur fyrir COP26 svört vísindaskýrsla, svokölluð IPCC skýrsla, samin af fremstu vísindamönnum um allan heim, um hvert stefnir.

Það má fara allt aftur á 19. öld til þess að finna þess stað í vísindum að tengsl séu milli aukins magns CO2 í andrúmsloftinu og hlýnunar á Jörðinni. Við höfum vitað þetta í meira en 100 ár! Það hefur hins vegar komið mörgum á óvart hve vandinn er farinn að vaxa hratt; með þurrkum, gróðureldum, fellibyljum og flóðum um allan heim. Íbúar á Norður- og Austurlandi glímdu einmitt við afleiðingar loftslagsvárinnar vegna skriðufalla nýlega.

Nú þegar ekki er lengur rifist um vísindin virðist hins vegar skorta traust, bæði milli leiðtoga stórþjóða sem og ríkra þjóða og fátækra. Til merkis um samstöðuleysið mæta hvorki Pútín Rússlandsforseti né Xi Jinping forseti Kína á COP26, leiðtogar ríkja sem bera ábyrgð á um þriðjungi af allri losun gróðurhúsalofttegunda

Glasgow-ráðstefnan hefur verið kölluð mikil­vægasta ráðstefna mannkyns. Þar verði þjóðarleiðtogar að horfast í augu við vandann í eitt skipti fyrir öll og gera eitthvað róttækt ef ekki á illa að fara. Væntingar eru miklar um allan heim – ekki síst meðal ungs fólks sem mun innan fárra ára sitja uppi með ábyrgðina og afleiðingar þess ef ekki verður gripið í taumana á meðan enn er mögulegt að hefta þróunina. En því miður bendir flest til þess að COP26 standi ekki undir þeim væntingum; sem þýðir með öðrum orðum að núverandi heimsleiðtogar eru ekki að axla þá ábyrgð sem þeim ber skylda til.