Hverju mannsbarni er kunnugt að úr innsta valdahring Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og Miðflokks (sem er reyndar söfnuður fremur en stjórnmálaflokkur) liggja gagnvegir til íslenzka útgerðarauðvaldsins. Það auðvald hefur slíkt steinbítstak á þessum stjórnmálasamtökum að ókleift virðist vera enn sem fyrr að festa með skýrum orðum í stjórnarskrá þá ályktun alls þorra landsmanna að íslenzka fiskveiðilögsagan sé annað og meira en gjöf úr guðs hendi til Samherja og þeirra hinna, gjöf sem gangi síðan að erfðum frá kyni til kyns, ef því er að skipta.

Græðgi útgerðarauðvaldsins er hemjulaus. Leigugjald af fiskveiðiauðlind þjóðarinnar er fyrir þeim óréttlátur, ef ekki lagalaus skattur. Veiðikóngarnir segja það ef til vill ekki bláköldum orðum, „en maður heyrir andardráttinn“ eins og þar stendur. Og þeim verður aldrei gert til geðs fyrr en þeir fá að nýta fiskveiðilögsögu Íslands endurgjaldslaust að fullu; og ekki með loðmullulegri heimild, heldur samkvæmt sjálfri stjórnarskrá landsins.

Hliðstæðu þess, þó vitaskuld að breyttu breytanda, er að finna sunnar í álfu: þegar gríska hagkerfið fór á hvolf um 2010, mest fyrir ýmiss konar sviksemi og hróplegan ójöfnuð heima fyrir um áratugi, og þrælsnúnir samningafundir tóku við í því skyni að treysta grískan efnahag með öllum tiltækum aðferðum, þá vörpuðu fulltrúar lánardrottna dag nokkurn fram spurningu til grískra stjórnvalda. Hún hljóðaði nokkurn veginn svona: „Væri ekki ráð að skattleggja skipakóngana?“ Spurningin vísaði til þess að einn allra stærsti farmskipafloti heims var og er í eigu grískra auðjöfra (muna menn eftir milljarðamæringunum og svilunum Aristoteles Onassis og Stavros Niarchos, svo tveir séu nefndir?).

Þegar áðurgreind spurning flaug fyrir var Alexis Tsipras orðinn forsætisráðherra Grikklands (gegndi embættinu 2015-19), róttækur jafnaðarmaður. Hann tók spurningunni vel að vonum og kvaðst mundu athuga málið. Síðan þá hefur litlum sögum farið af þeirri athugun svo greinarhöfundur viti.

En hvers vegna var þessi spurning borin upp í miðri skuldakreppu grísku þjóðarinnar? Jú, vegna þess að auðjöfrar þeirrar þjóðar, skipakóngarnir, höfðu komið ár sinni svo vel fyrir borð að samkvæmt stjórnarskrá landsins bar þeim ekki að greiða skatt!

Sannið til: íslenzku veiðikóngarnir láta sig aldrei fyrr en þeir hafa að sínu leyti náð fram sömu fríðindum og grísku skipakóngarnir. Og þegar orðalag íslenzku stjórnarskrárinnar um fiskirí verður komið í það horf sem þeim líkar og ríkiskassinn tæmist næst, þá spyr kaupmaðurinn á horninu í mesta sakleysi: „Er ekki einhver leið til að innheimta auðlindagjaldið sáluga?“

Höfundur er rithöfundur.