Tvisvar með stuttu millibili hefur aðalmeðferð í kynferðisbrotamáli farið fram fyrir opnum tjöldum, en það er undantekning frá meginreglunni. Í báðum tilvikum ákváðu brotaþolar að óska ekki eftir lokun. Þær vildu frekar hafa réttinn til að vera viðstaddar réttarhöldin, sem þær hefðu annars ekki fengið.

Þolendur kynferðisbrota hafa lagt á það áherslu í byltingum undanfarinna ára og missera að skila skömminni. Fátt hefur sýnt þá afstöðu betur en óskir brotaþola í þessum tveimur málum um að þinghöld í málum þeirra verði opin.

Lögum samkvæmt er tillitssemi við brotaþola eitt helsta markmið heimildar til að loka þinghöldum. Sá viðsnúningur er hins vegar að verða, að það er oftar en ekki hinn ákærði sem leggur mesta áherslu á að réttað sé yfir honum fyrir luktum dyrum. Þannig hefur vernd fyrir brotaþola snúist upp í vernd og leyndarhjúp hinum ákærða til hlífðar.

Hér hafa brotaþolar valdið í hendi sér. Með því að leggja áherslu á opið þinghald í réttarhöldum sinna mála er skömminni skilað; skömminni sem lögin sjálf gera ráð fyrir og bjóða leyndarhjúp til að varðveita hana.

Meginreglan um opinbera málsmeðferð er ætluð til þess að veita dómstólum aðhald. Það þarf að birta dóma og þinghöld eru háð fyrir opnum tjöldum, annars vegar er það réttur þess sem sakaður er um refsiverða háttsemi, að réttum reglum sé beitt og mannréttindi hans virt. Hins vegar eiga brotaþoli og allir borgarar rétt á að fylgjast með því að réttlætið nái fram að ganga með eðlilegum hætti.

Undanfarin misseri hafa konur gagnrýnt meðferð kynferðisbrotamála í landinu. Þær gagnrýna seinagang í kerfinu, þær gagnrýna að þeim sé ekki trúað og að kerfið sé of hliðhollt gerendum.

Með því að leggja áherslu á opið þinghald í málum sínum, geta þær tryggt betur það aðhald sem þarf að vera fyrir hendi gagnvart dómsvaldinu. Þær geta skilað skömminni sem kerfið hefur sagt þeim að þær eigi að hafa, til gerandans, sem óskar einskis frekar en að fá dóm í kyrrþey.

Auðvitað er ekki ánægjulegt fyrir þolendur að fjölmiðlar fjalli um mál þeirra. En það er sennilega eina leiðin til þeirrar viðhorfsbreytingar sem þarf að verða bæði í réttarkerfinu og samfélaginu. Fyrir meinta gerendur ætti opið þinghald ekki heldur að vera svo afleitt enda einkennismerki á réttlátri málsmeðferð fyrir dómi, að þar fá sjónarmið allra aðila að koma fram. Líka þess sem telur sig saklausan af ákæru.