Grunnskólarnir byrja og lífið fer í fastar skorður eftir sumarfrí. Vellíðan grunnskólanemanda og trú á eigin getu er forsenda árangurs í námi. Sterk tenging, samvera og spjall við foreldra sem gefa sér tíma til að sýna barni sínu áhuga, styður við vellíðan og öryggistilfinningu. Að eiga vini, stunda áhugamál og hafa næði til að sinna heimanámi eru einnig grundvallaratriði ásamt því að sofa nægilega mikið og verja  ekki  of löngum tíma í  skjánotkun.

Vel gengur að manna stöður í skólum Garðabæjar

Grunnskólar Garðabæjar tóku á móti nemendum sínum miðvikudaginn 22. ágúst. Nú eru ríflega 2500 grunnskólanemendur innritaðir í 1.- 10. bekk, þar af eru rúmlega 200 börn að hefja nám í 1. bekk. Almennt hefur gengið vel að manna stöður í skólum bæjarins og tómstundaheimilum. Hofsstaðaskóli, Flataskóli og Garðaskóli eru fjölmennustu grunnskólarnir með um og yfir 500 nemendur hver.

Að hefja nám  á nýju skólastigi

Það getur verið mikil áskorun fyrir barn að hefja nám á nýju skólastigi, í nýjum skóla eða bara hreinlega að sumarfríi loknu. Til  að slíkt efli barnið sem einstakling en ali ekki á kvíða eða vanmati er mikilvægt að fylgjast vel með, sýna upplifun barnsins áhuga og vera hvetjandi. Spyrja, gefa sér tíma, horfa í augun og hlusta. Barnið þarf að finna að það skipti máli og upplifun þess sé mikilvæg. Það eykur öryggi barnsins ef foreldrar þess þekkja vini barnsins og  eru í jákvæðum samskiptum við skólann. Jákvæð umræða um kennara og skólann heima fyrir er mikilvæg auk þess að hafa samband við skólann ef þurfa þykir til að leita lausna mála sem upp kunna að koma. Foreldrar og starfsmenn skóla hafa sama markmið sem er að barnið njóti sín og því vegni sem best. Læsi er einn af grunnþáttum menntunar en til að börn nái tökum á lestri þurfa þau mikla æfingu heima og í skólanum. Það getur verið snjallt að tengja lesturinn við samveru og spjall um lífið og tilveruna.

Fagmennska grunnskólakennara

Sí- og endurmenntun er ríkur þáttur í starfi kennara. Nú í ágúst voru mennta- og fræðsludagar fyrir grunnskólakennara í Garðabæ. Þar var meðal annars um að ræða áherslu á tölvu- og upplýsingatækni og fyrirlestur um innleiðingu leiðsagnamats hjá Seamus Gibbons, skólastjóra Langford Primary í London. Seamus lagði áherslu á leiðbeinandi kennsluhætti, þar sem nemendur eru meðvitaðir um nám sitt og kennarar eru virkir í að meta hvernig nemendur læra best og fylgjast nákvæmlega með námsframvindu hvers og eins. Fyrirlesturinn markaði upphafið að nýju þróunarverkefni hjá grunnskólum Garðabæjar um leiðbeinandi kennsluhætti sem er framhald á þróunarverkefni sem unnið var síðasta vetur um leiðsagnarmat. Bæði þessi verkefni eru styrkt af Þróunarsjóði grunnskóla Garðabæjar sem hefur sl. fjögur ár úthlutað 25 milljónum árlega til margvíslegar þróunarverkefna í grunnskólum bæjarins.

Skólamannvirki

Innra starf skólanna og fagmennska er mikilvægasti þátturinn í skólastarfinu en húsnæði og aðbúnaður þarf að  skapa tækifæri fyrir öfluga starfsemi. Miklar framkvæmdir eru við Urriðaholtsskóla þar sem starfræktur er nú  leikskóli og grunnskóli fyrir nemendur  í 1.-4. bekk. Skólinn mun vaxa með þessum nemendahópum og verða grunnskóli frá 1.-10. bekk. Hluti skólans hefur verið tekinn í notkun og skólalóðin er glæsileg og fullbúin en unnið er að því að taka stærri hluta skólans í notkun. Einnig er nú unnið að 1500 fm viðbyggingu við Álftanesskóla sem mun gjörbreyta aðstöðu við skólann.

Gjaldfrjáls námsgögn

Fyrir einu ári var samþykkt í bæjarstjórn Garðabæjar að veita grunnskólanemendum gjaldfrjáls námsgögn. Þetta er nú annað árið sem nemendum bjóðast námsgögnin en Garðabær var aðili að útboði ríkiskaupa varðandi námsgögnin. Þessi  aðgerð tryggir öllum nemendum námsgögn við hæfi, vinnur gegn hugsanlegri mismunum og  léttir á útgjöldum foreldrar grunnskólabarna.

Tenging leik- og grunnskólastigs

Sumaropnun tómstundaheimila grunnskólanna hófst 13. ágúst og hefur gengið mjög vel. Markmiðið með þessari þjónustu er að auðvelda nemendum sem koma úr leikskóla aðlögun að því að hefja nám í grunnskóla. Þar býðst öllum verðandi nemendum í 1. bekk að mæta nokkrum dögum fyrir skólabyrjun til  að kynnast skólanum og umhverfi hans. Þessi tenging frá leikskóla yfir í grunnskóla auðveldar nemendum að hefja nám á nýju skólastigi.

Skólabarnið í forgang!

Setjum skólabarnið okkar númer eitt - sér í lagi næstu vikurnar. Sköpum gleði og festu í kringum skólabyrjun og tryggjum þannig að það sé skemmtilegt að byrja í skólanum að loknu sumarfríi!