Íslenskt landslag hefur tekið umtalsverðum breytingum undanfarin ár vegna skógræktar, m.a. í nafni kolefnisjöfnunar. Finnst mér kominn tími til að staldra við og huga betur að þeim spjöllum sem hömlulaus skógrækt getur valdið. Í rauninni ætti hvergi að leyfa umfangsmikla plöntun trjáa nema að undangengnu umhverfismati, svo miklum breytingum sem skógrækt veldur á landinu. Víða er plantað stórvöxnum barrtrjám í valllendismóa sem smám saman gjörbreytir gróðurþekjunni, eyðir smágróðri og berjalyngi og hrekur mófuglinn burt úr kjörlendi sínu. Víða er plantað upp um hæðir og fjallshlíðar, með fram vötnum og klettabeltum sem hindar útsýni svo jafnvel hraunmyndanir, hólar, klettar, gil og lækir hverfa á kaf í skóg eða ágengar gróðurtegundir. Sums staðar er stórvöxnum trjám plantað nálægt vegum svo ferðalangar sjá lítið lengur nema upp í heiðan himininn og á vetrum draga trén að snjóalög.

Það er gott og blessað og þakkarvert að græða landið þar sem þörf krefur, græða uppblásin svæði og eyðisanda og stöðva uppblástur en það má ekki vera á höndum fárra einstaklinga að ákvarða hvar umbylta má landslagi á varanlegan máta. Umhverfismat vegna skógræktar hlýtur að vera réttmæt krafa rétt eins og þegar um er að ræða virkjanir, vegaframkvæmdir eða annað sem veldur verulegri röskun á landslagi. Barrtré og erlendar ágengar trjátegundir eiga ekkert erindi ofan í íslenska lyngmóa þar sem þau umturna upphaflegri gróðurþekju og því lífríki sem fyrir er.

Á vegi okkar hjóna varð eitt sinn bandarísk fjölskylda sem hafði orð á því hve dásamlegt væri að aka um Ísland þar sem auðvelt væri að virða fyrir sér fjölbreytni landslagsins. Þegar þau ferðuðust um sitt heimaland sæist varla neitt nema tré eða heiður himinninn milli trjátoppanna. Viljum við kaffæra landið okkar á þennan hátt? Ég segi nei, förum gætilega að gróðri landsins, „smávinirnir fögru“ eru foldarskart eins og Jónas komst forðum að orði.