Skoðanaskipti á Íslandi gætu verið í hættu af ástæðu sem rekja má til upplýsingahræðslu. En svo er nú komið, að því er virðist í æ fleiri tilvikum, að betur fer á því að halda sig til hlés en að tjá hug sinn til manna og málefna.

Og láti menn í ljósi álit sitt og afstöðu eru þeir nú hæglega skotnir á færi – það er tíska dagsins, krafa kvöldsins; þeir skuli lítillækkaðir, forsmáðir og bannfærðir, gott ef ekki útilokaðir. Skoðun er nefnilega ekki lengur sjálfsögð, eðlilegt efni í umræðu, hvati til vitrænna samskipta, hvað þá saklaus máti til gagnrýninna tjáskipta, heldur er hún meiningarfull og oft og tíðum ofhlaðin af gildismati, og þess þá heldur hættuleg og afhjúpandi fyrir allan okkar innri mann.

Í raun og veru hefur rannsóknarréttur miðalda verið endurvakinn með aðstoð eilífðartækninnar sem festir öll okkar samskipti til frambúðar – og það sem við segjum í dag, kannski umhugsunarlaust og ógætilega, felur í sér endanlega dóminn um okkar ágæti. Við erum það sem við segjum og gerum á samfélagsmiðlum – og þar er komin varanleg umsögn um mannkosti okkar, ef þeir eru þá á annað borð einhverjir.

Staðan er nefnilega þessi: Umburðarlyndið og þolinmæðin gagnvart skoðunum annarra virðist vera á undanhaldi, altso hleypidóma­leysið og mildin í samskiptum við þá sem kunna að halda öðru fram en maður sjálfur. Og verst er óþolið gagnvart skrýtnum skoðunum, óvæntum, allt öðru vísi en áður hafa verið viðraðar, en einkum og sér í lagi gagnvart skýrum málflutningi fólks sem vill bara standa í lappirnar og leyfa sér annað en hjarðhegðun.

Þessi hægfara þróun í átt til einnar leyfilegrar skoðunar í hvaða málaflokki sem er, mun grafa undan lýðræðinu. Hún mun draga þróttinn úr lífsnauðsynlegu samtali þjóðarinnar um áherslur og stefnur – og hún mun líka gera samfélagið einsleitara og óttaslegnara.

Skoðanir eru eðlilegar. Ólíkar skoðanir eru nauðsynlegar. Þær búa til súrefnið í samfélaginu. Ysti maðurinn til hægri græðir alltaf á samtalinu við ysta manninn til vinstri – og miðjumaðurinn þar á milli hefur alltaf eitthvað mikilvægt til málanna að leggja. Og það er af því að eitthvert inntak er til í öllum skoðunum, einhver kjarni sem verðugt er að velta fyrir sér. Og vera sammála honum og vera ósammála honum.

En útiloka hann ekki.