Atvinnurekendur á Íslandi kalla nú eftir því að stjórnmálin láti að sér kveða í viðureigninni við heimsfaraldurinn. Það gangi ekki lengur að vísindin haldi um alla valdaþræði í landinu og stjórni því ein hvort fólk megi mæta til vinnu eða í skóla, verði að vera heima hjá sér eða á sóttvarnahóteli eða geti yfirleitt um frjálst höfuð strokið. En ætli það sé nú líklegt að stjórnmálin stökkvi fram og taki þessari herhvöt? Varla. Það hefur verið svo óskaplega gott að vera í skjóli vísindanna undanliðin misseri og gott ef það hefur ekki færst værð yfir íslensk stjórnmál vegna þessa. Og hvers vegna að eyðileggja svoleiðis unaðsdaga?

Skíðin

Svo ofurrólegt er raunar yfir íslenskum stjórnmálum þessa dagana og vikurnar að jafnt ráðherrar og flokksformenn eru svo til óþarfir í vinnunni. Þeir eru allt eins betur geymdir í skíðabrekkunum austur á meginlandi Evrópu eða á áhorfendapöllunum þar um slóðir, en dægrastytting af því tagi er auðvitað einstaklega vel til fundin á meðan þríeykið ræður yfir eyjunni í útnorðri. Þar fyrir utan situr nú endurnýjuð íslensk ríkisstjórn að völdum sem ætlar sér ekki að breyta neinu til sjávar og sveita, svo það er kannski alveg inni í myndinni að framlengja fríið í útlöndum.