Vorið 1957 sendi Carl Jung, svissneskur geðlæknir og faðir greiningarsálfræðinnar, vini sínum bréf. „Kæri Schmaltz. Ég skil ósk þína, en hún samræmist ekki aðstæðum mínum.“ Gustav Schmaltz hafði óskað eftir að fá að verja nokkrum dögum með Jung við skraf og ráðagerðir. „Einvera er uppspretta heilbrigðis míns og það sem gerir lífið þess virði að lifa því. Samtöl eru mér oft sem pynting; stundum tekur það mig marga daga að jafna mig á fánýti orða.“

Undirskriftasöfnun stendur nú yfir meðal kennara við Háskóla Íslands þar sem þess er krafist að horfið verði frá áformum um að svipta kennarana skrifstofum sínum og færa þá í opin rými. „Við eigum að sitja saman í eins konar lobbíi sem lítur út eins og flugstöð eða mathöll með tölvurnar okkar fyrir framan alla,“ sagði Arngrímur Vídalín Stefánsson, forsvarsmaður undirskriftasöfnunarinnar, í samtali við Fréttablaðið.

Veggir eru ekki einu skilrúmin sem valda titringi á vinnumarkaði nú um stundir. Í vikunni bárust fréttir af því að sérfræðingar í mannauðsstjórnun við Háskólann í Exeter á Englandi hygðust binda enda á svo kallaðan „sunnudagstrega“, kvíða sem margir finna fyrir undir lok helgar. Leggja þeir til að atvinnurekendur bjóði upp á skemmtilegar uppákomur á mánudagsmorgnum, tékklistar séu útbúnir á föstudögum svo að ljóst sé hvað liggi fyrir við upphaf nýrrar vinnuviku og stjórnendum sé bannað að senda starfsfólki tölvupósta um helgar.

„Rannsóknir okkar sýna að óljós skil á milli heimilis og vinnu magni upp sunnudagstregann,“ sagði Ilke Inceoglu, prófessor við Exeter-háskóla. „Niðurbrot á skilrúmum hefur ágerst eftir kóvid en slíkt hefur mikil áhrif á velferð okkar.“

Verksmiðjubú skrifstofuheimsins

Ólíklegt er að samúð vikunnar falli í skaut háskólakennurum sem gráta nú einkaskrifstofur sínar. Málið hefur þó breiðari skírskotun en kann að virðast í fyrstu.

Það er ekki aðeins niðurbrot á óeiginlegum skilrúmum sem hefur áhrif á velferð okkar í vinnunni. Rannsókn sýndi að vellíðan starfsfólks sem fært var úr einstaklingsskrifstofu í opið rými minnkaði um þriðjung. Afköst drógust jafnframt saman um 20% og veikindadögum fjölgaði.

Opin vinnurými eru verksmiðjubú skrifstofuheimsins. Sparnaður atvinnurekandans er á kostnað velferðar þess sem hefst þar við. Réttlæting á opnum vinnurýmum er hins vegar undirorpin upphafningu samtímans á samneyti.

Því er stöðugt haldið að okkur að við séum félagsverur. Ef við erum ekki á leiðinni að hitta einhvern í kaffi eða kokteil erum við ekki að standa okkur í stykkinu. Klingi farsíminn ekki með skilaboðum eins og kirkjuklukkur á jólum er það merki um að okkur sé að mistakast. Hæfni okkar til að vinna saman í hópum er sögð liggja til grundvallar yfirburðum mannskepnunnar á jörðinni. Samvera er ekki aðeins talin hið náttúrulega ástand heldur hin æðsta dyggð; hún er í senn athöfn og stöðutákn.

Niðurbrot skilrúma á sér ekki aðeins stað á vinnumarkaði. Væri Carl Jung uppi í dag reyndist það honum vandasamt að tryggja sér nauðsynlega einveru, skjól undan „fánýti orða“. Þökk sé nútímatækni eru skil milli einveru og samneytis orðin svo óljós að við erum ekki einu sinni ein á klósettinu lengur.

„Helvíti er annað fólk,“ er haft eftir persónu í leikriti franska heimspekingsins Jean-Paul Sartre. Skaðsemi opinna vinnurýma rennir stoðum undir nauðsyn einveru. Við lifum hins vegar á tímum þar sem einveru er ekki einu sinni að finna í einsemdinni. Þrautir háskólakennara, sem velkjast í veggjalausri víðáttu eins og iðrandi syndarar í hreinsunareldinum, eru því þrautir okkar allra.