Lokuð landamæri, grímuklæddir einstaklingar og yfir tíu þúsund jarðskjálftar á innan við viku. Þetta hljómar meira eins og söguþráður í bók eftir Sigríði Hagalín en blákaldur raunveruleiki Íslendings í nútíð. En við erum nú líklega meðvitaðri en áður um að raunveruleikinn er glettilega fljótur að breytast.

Það er ekki langt síðan okkur hefði þótt ómögulegt að ímynda okkur það sem í dag er orðið staðreynd. Eðlilegt er ekki orðið sem ég myndi nota um skert ferðafrelsi, fjöldatakmarkanir og grímunotkun en staðreynd er það.

Nú hefur jörð hér á suðvesturhorninu skolfið með reglulegu millibili í tæpa viku og eru skjálftasérfræðingar álíka útbreiddir og sóttvarnasérfræðingarnir og ágiskanir um stærðir skjálfta orðnar vinsæl dægradvöl á heimilum.

Segja má að fréttir úreldist óvenju fljótt þessa dagana en á meðan RÚV segir fyrstu frétt af skjálftavirkni hristist jörð á ný. Líklega bætast svo þúsund skjálftar í hrinuna áður en þessi orð ná inn á heimili landsmanna.

Þó svo að um sé að ræða óvenju langa skjálftahrinu og nýjustu gervitunglamælingar gefi ástæðu til frekari skoðunar á möguleikanum á gosi, virðist ekki ástæða til að óttast. Jafnvel þó eðlileg ónot fari um fólk í aðstæðum sem ekki verður ráðið við þá myndi hraun frá slíku gosi ekki hafa áhrif á byggð.

Segja má að við séum í ákveðnum hamfaragír, það hefur mikið gengið á og fátt kemur lengur á óvart. Því kippti maður sér ekki svo upp við að hlýða á Dag B. Eggertsson, borgarstjóra og formann almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins, ræða mögulega rýmingu höfuðborgarsvæðisins í morgunútvarpi Rásar 2 í gær.

En eins og formaðurinn sjálfur sagði eru líkurnar á slíku hverfandi því jafnvel þó að eldgos yrði eru líkur á hraunflóði innan borgarinnar litlar sem engar.

Þó svo við lifum nú undarlega tíma og mörgum líði illa yfir sóttvarnaaðgerðum og titrandi jörð veki hjá sumum óhug megum við vel við una. Hér höfum við náð betri tökum á COVID-faraldrinum en nágrannaríkin, takmarkanir eru á undanhaldi og þó skjálftarnir séu margir þá erum við vel undirbúin. Byggingarreglugerðir hér á landi eru strangar af ástæðu og húsakostur okkar þannig byggður til að þola jarðskjálfta. Almannavarnanefnd er svo líka í góðri fundaæfingu.

Svo rétt á meðan þessi vísindaskáldsaga heldur áfram að þróast er fátt annað að gera en að fjarlægja lausa muni úr hillum og fara varlega við brattar hlíðar þar sem grjót- eða snjóhrun getur orðið.