Um 1850 varð Reykjavík almennt viðurkenndur höfuðstaður Íslands. Á næstu öld þéttist og þróaðist bærinn í dæmigerða „evrópska“ smáborg, eina með öllu, svo sem virkum miðbæ, nánd, nærþjónustu og strætó.

Þann 1. janúar 1932 var Vatnsmýrarsvæðið fært til Reykjavíkur úr Seltjarnarneshreppi vegna fyrirsjáanlegs og yfirvofandi skorts á heppilegu byggingarlandi í ört stækkandi höfuðborg.

En 6. júlí 1946 framdi ríkið fjandsamlega yfirtöku svæðisins undir flugvöll til leigufrírra afnota fyrir ríkisstyrkt Flugfélag Akureyrar, síðar Flugfélag Íslands, nú Air Iceland Conn­ect.

Í stað NÝRRAR MIÐBORGAR kom flugvöllur. Reykvíkingar glötuðu þá besta mannvistar- og þróunarsvæði sínu og yfirráðum yfir allri lofthelgi á Nesinu vestan Elliðaáa. Allar forsendur borgarskipulags, byggðarþróunar, borgarsamfélags og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar gjörbreyttust.

Frá stríðslokum hafa kjörnir fulltrúar Reykvíkinga í borgarstjórn og á Alþingi ráðið litlu, sem máli skiptir, um skipulag og framtíðarþróun Reykjavíkur. Skipulagsvald borgarinnar færðist til ríkisins og undir áhrifavald forkólfa Akureyringa og samherja þeirra á landsbyggðinni í krafti mikils atkvæðamisvægis .

Afleiðingar þessa fjandsamlega landráns eru auðvitað ólýsanlegar. Ekki eru til afdrifaríkari breytingar á þróunarforsendum efnilegrar og ört vaxandi smáborgar eins og Reykjavík var í stríðslok en að taka frá henni möguleika á öflugri miðborg og setja í staðinn flugvöll, ígildi tifandi vítisvélar.

Stjórnlaus útþensla borgarinnar (Urban Sprawl) tók við og glænýtt þéttbýli spratt upp úr engu á áður óbyggðu landi umhverfis Reykjavík fyrir aðflutta íbúa af landsbyggðinni, í Mosfellssveit, Garðahreppi og á jörðinni Kópavogi. Á sama tíma óx byggð í Reykjavík með leifturhraða austur eftir Nesinu og yfir Elliðaár.

Öll einkenni „evrópskrar“ smáborgar hurfu eins og dögg fyrir sólu, nándin, nærþjónustan, nothæfur strætó og virkur miðbær, sem hnignaði hratt og koðnaði loks niður. Þéttleiki byggðar hrundi og forsendur nærþjónustu og almannasamgangna brustu.

Til varð núverandi höfuðborgarsvæði (HBS) sem árið 2021 þekur 16.000 ha, á við Manhattan og París samanlagt. Byggðin er útþanin og óskilvirk flatneskja, að minnsta kosti fjórfalt víðáttumeiri en ella hefði orðið án flugvallar í Vatnsmýri. Brúttóþéttleiki byggðarinnar er langt undir neðri mörkum sjálfbærni.

Samgönguráðherra bregður sér í gervi brúðumeistara og ver nú flugvöll í Vatnsmýri í flóknu og vel leikstýrðu samsæri sameinaðra forkólfa ohf. gegn hagsmunum Reykvíkinga og gegn þjóðarhag, forkólfa Akureyringa, forkólfa sveitarstjórna í Kraganum (HaGaKóMo), Alþingis, framkvæmdavalds og auðvitað nytsamra sakleysingja úr röðum kjörinna fulltrúa Reykvíkinga sjálfra bæði á Alþingi og í borgarstjórn.

Enginn er til varnar nema Samtök um betri byggð (BB). En rödd þeirra er kæfð í ærandi þögn í boði stjórnenda umræðunnar. Hverjir stjórna umræðunni? Það eru auðvitað forkólfarnir ohf.

Hvergi er að finna í lögum og reglugerðum stafkrók um að grundvallarréttindi Reykjavíkur til sjálfstjórnar í skipulagsmálum séu minni eða öðru vísi en annarra sveitarfélaga. Hvað skýrir þá ótrúlegan undirlægjuhátt kjörinna fulltrúa Reykvíkinga gagnvart landsbyggðarsjónarmiðum og ríkisvaldi?

Athyglin beinist að misvægi atkvæða. Skipulagsréttur Reykvíkinga hvarf ekki á formlegan og rekjanlegan hátt. Ógæfa borgarbúa er nefnilega fólgin í þessari undirgefni þingmanna og borgarfulltrúa reykvískra stjórnmálaafla með landsbyggðartengingu. Árið 2021 eru allir kjörnir fulltrúar Reykvíkinga í borgarstjórn og á Alþingi landsbyggðartengdir í gegnum landsmálaflokkana („fjórflokkinn“) eins og verið hefur frá stríðslokum og lengur ef Besti flokkurinn 2010 er undanskilinn. Störf og stefna hinna kjörnu í málum, sem lúta að fjárveitingum, borgarskipulagi og flugvelli í Vatnsmýri, mótast því af samfélagslegri bjögun af misvægi atkvæða. Hefð myndaðist um undirlægjuháttinn en margir kjörnir fulltrúar segjast sammála stefnu Samtaka um betri byggð (BB) en … „þetta er bara pólitískt ómögulegt“… !?

Auðsveipni hinna kjörnu er viðhaldið af forkólfum Akureyringa og samherjum þeirra, sem ráða lögum og lofum á landsfundum fjórflokksins og á Alþingi með taumlausri misbeitingu misvægis atkvæða. En ráðherrann og hinir forkólfarnir eru ekki í neinu og hinir kjörnu þurfa ekki að gera annað en að snúa við blaðinu og einbeita sér að hag kjósenda sinna.

Vald ríkisins er hvorki raunverulegt né lögvarið heldur stafar af ógnarvaldi misvægisins. Það sannar stjórnartíð Besta flokksins 2010-2014, sem hafði engin pólitísk landsbyggðartengsl. Hann tók meðal annars upp stefnu Samtaka um betri byggð (BB) í skipulagsmálum.

Arfleifð Besta flokksins er samkomulag um brottför flugvallar úr Vatnsmýri fyrir árslok 2022 og þokkalega gott Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, sem ríkjandi meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur vill nú breyta og laga að Svæðisskipulagi HBS og hugmynd um BORGARLÍNU (BL). til mikils tjóns fyrir Reykvíkinga og aðra landsmenn. Samkvæmt samkomulaginu á flugvöllur að hverfa úr Vatnsmýri innan 670 daga sé miðað við 1. mars 2021.