Hafnir þjóna mikilvægu hlutverki í fjölmáta flutningskerfum þar sem þær eru miðstöð flæðis fyrir vörur, gáma og farþega. Hafnir eru ekki bara mikilvægar fyrir flutninga til og frá landi, þar fer líka fram mikilvæg virðisaukandi starfsemi þar sem margar atvinnugreinar vinna að vinnslu afurða til að auka verðmæti þeirra og auka virði fyrir viðskipavini sína. Þetta gerir að verkum að hafnir hafa áberandi stöðu í aðfangakeðjum og hagkerfum þjóða.

Líta má á hafnir í stærra samhengi sem kerfi. Hafnarkerfið er tengt ýmsum hagsmunaaðilum. Hagsmunaaðili hafnar er einstaklingur eða hópur einstaklinga sem geta haft áhrif á hafnarstarfsemi eða verða fyrir áhrifum hennar. Hagsmunaaðilar geta knúið á um ákvarðanatöku varðandi hafnarþróun og því er þátttaka þeirra mikilvæg í skipulagsferlinu. Áhrif og áhugi hagsmunaaðila á hafnarþróun er töluvert mismunandi eftir því hvort horft er til staðbundinna, svæðisbundinna eða landsáhrifa og geta breyst með tímanum. Áhrif hagsmunaaðila vísar til hæfni þeirra að hafa áhrif á þróun hafna. Áhugi vísar til áhuga þeirra á uppbyggingu hafnarinnar. Það þarf að hafa áhrif og áhuga hagsmunaaðila í huga með viðeigandi hætti við skipulag hafna. Hafnasamband Íslands hefur bent á að til þess að unnt sé að mæta þörfum hafnarhagsmunaaðila betur þá þarf að hafa þá með í skipulagsgerð hafna.

Skilvirk þátttaka hagsmunaaðila í hafnarskipulagi bætir ákvarðanatöku, dregur úr ágreiningi og eykur sátt um skipulagið og bætir þar með árangur skipulagsins. Þess vegna var í þessu verkefni settur fram greiningarrammi fyrir hafnarhagsmunaaðila sem var kynntur fyrir vísindamönnum, hafnarverkfræðingum, hagaðilum og stjórnendum til að auðvelda virkjun hagsmunaaðila til þátttöku í skipulagsgerð fyrir hafnir. Ramminn fjallar um auðkenningu, flokkun og kortlagningu/mat á hagsmunaaðilum hvað varðar áhrif og áhuga þeirra á skipulagsgerðinni og til að leggja mat á hve mikið þarf að virkja hvern hagsmunaaðila meðan á skipulagsgerð stendur.

Rannsóknin var unnin fyrir hafnir Ísafjarðarbæjar. Hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur umsjón með fjórum höfnum: Ísafjarðarhöfn (Mynd 1), Suðureyrarhöfn, Flateyrarhöfn og Þingeyrarhöfn. Hafnirnar eru misjafnar að stærð, virkni, landfræðilegum og siglingaraðstæðum. Hafnirnar eru staðsettar við aðal leið strandflutninga umhverfis landið. Árstíðabundin hafnarstarfsemi, dýptar- og bryggjutakmarkanir og takmarkað nærliggjandi landsvæði hafa áhrif þegar hafnirnar vaxa til að mæta aukinni eftirspurn. Því hefur hafnarstjórn Ísafjarðar unnið að þróun hafnarsvæðanna.

Ísafjarðarhöfn.
Mynd/Majid Eskafi

Í þessari rannsókn var víðtækasti hópur hagsmunaaðila hafna á Íslandi skilgreindur. Reynt var að ná til allra viðeigandi hagsmunaaðila. Það var gert með að hafa samband við þá alla, 51 talsins, með tölvupósti, símtali og með viðtölum augliti til auglitis, þar sem safnað var upplýsingum um markmið þeirra varðandi þróun hafna. Til að leggja mat á eiginleika hagsmunaaðilanna hvað varðar áhrif og áhuga var einnig send könnun til valinna hagsmunaaðila. Hagsmunaaðilunum var skipt í fimm hópa út frá hlutverkum þeirra í hafnargerð. Hóparnir eru: 1- innri hagsmunaaðilar, 2- ytri hagsmunaaðilar, 3- hagsmunaaðilar löggjafar og opinberrar stefnu, 4- hagsmunaaðilar samfélagsins og 5- fræðilegir hagsmunaaðilar.

Áhrifa og áhugamat var notað til að flokka hagsmunaaðila eftir mati á áhrifum þeirra og áhuga. Matinu var skipt í fjóra flokka sem tákna mismunandi hagsmunaaðila. Í fyrsta lagi var hver hópur kortlagður í ljósi markmiða hafnarskipulags til að sýna mismun á eiginleikum þeirra og hjálpa ákvörðunartökum að virkja hagsmunaaðilana í skipulagsgerðinni.

Í þessari rannsókn voru hagsmunahóparnir kortlagðir og niðurstöðurnar sýna að þrjá hagsmunahópa er hægt að flokka sem aðalhópa í skipulagsferlinu. Innri hagsmunaaðilar (t.d. sveitarfélög) eru helsti aðilinn og með mest áhrif og áhuga á hafnarskipulagi, enda er þessi hópur í lykilstöðu þegar kemur að framkvæmd á þróunaráætlun hafna. Hagsmunaaðilar löggjafar og opinberrar stefnu (t.d. Skipulagsstofnun) eru með mikil áhrif og áhuga þar sem þeir taka þátt í ákvörðun um að samþykkja hafnaráætlanir. Mikill áhugi ytri hagsmunaaðila (t.d. sjávarútvegsfyrirtækja) felur í sér veruleg áhrif hafnarþróunar á þessa aðila og öfugt. Hagsmunir ytri hagsmunaaðila eru í samræmi við hagsmuni innri hagsmunaaðila þar sem vaxandi kröfur um innviði, rekstur og þjónustu krefjast þess að innri hagsmunaaðilar þrói hafnir. Þessir þrír hópar eru miklir drifkraftar breytinga á ákvarðanatöku og þeir ættu allir að taka fullan þátt í skipulagsferli hafna á áhrifasvæði sínu.

Hagsmunaaðilar samfélagsins hafa minni áhrif á ákvarðanir í skipulagsferlinu. Hins vegar, eins og niðurstöður útreikninga á staðalfráviki sýna, getur þessi hópur samt haft mikil áhrif á ákvarðanatöku í skipulagningu. Til dæmis ef íbúum fjölgar þá eykst eftirspurn eftir landi í kringum höfnina. Hagsmunaaðilar samfélagsins geta því, undir vissum kringumstæðum, haft mikinn áhuga á hafnarþróun og ber að hafa þá upplýsta meðan á skipulagsferlinu stendur.

Fræðilegir hagsmunaaðilar gegna mikilvægu hlutverki í skipulagningu hafna með rannsóknum sínum og kynningum á lausnum á áskorunum. Þessi hópur hefur mikinn áhuga á hafnarskipulagi, eins og útreikningar á staðalfráviki sýna á mynd 2, og eiga af þeim sökum að vera upplýstir um skipulagsgerð hafna.

Áhrifa og áhugamat hagsmunaaðila og flokkun þeirra í hópa eftir eiginleikum.

Í rannsókn þessari voru tímaháð áhrif og áhugi hagsmunaaðilahópana einnig metin til að lýsa breytingum á eiginleikum hópanna með tíma. Niðurstöðurnar benda til þess að innri hagsmunaaðilar gegni stöðugu hlutverki við skipulag hafna. Hagsmunaaðilar löggjafar og opinberrar stefnu, ytri hagsmunaaðilar og hagsmunaaðilar samfélagsins hafa eiginleika sem geta breyst hratt og sem geta haft mikil áhrif á ákvarðanatöku í skipulagi hafna. Því er mikilvægt að fylgjast tíðar með þeim hagsmunaaðilum og taka tillit til breytinga. Eiginleikar fræðilegra hagsmunaaðila haldast frekar stöðugir og breytast lítið með tíma, innan tímaramma rannsóknarinnar.

Þessi grein lýsir niðurstöðum hluta af rannsókn á skipulagsgerð hafna sem var studd af Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands, Ísafjarðarbæ, Rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar og Hafnasambandi Íslands og var hluti af doktorsrannsóknum höfundar.

Höfundur er doktor við umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands.

Nánari upplýsingar:

Eskafi, M., Fazeli, R., Dastgheib, A., Taneja, P., Ulfarsson, G. F., Thorarinsdottir, R. I., and Stefansson, G., 2019. “Stakeholder Salience and Prioritization for Port Master Planning, a Case Study of the Multi-Purpose Port of Isafjordur in Iceland”, European Journal of Transport and Infrastructure Research, ISSN: 1567-7141, 19 (3), pp. 214-260.

https://doi.org/10.18757/ejtir.2019.19.3.4386