Í byrjun árs er litið um öxl og farið yfir árið sem var að kveðja. Skipulagsmál hafa verið áberandi á dagskrá bæjarstjórnar Hafnarfjarðar allt síðasta ár, fundir bæjarstjórnar voru 21 á árinu og alls voru 67 mál á dagskrá er varða skipulag, misstór mál en allt mál sem vísað var úr skipulags- og byggingarráði til afgreiðslu bæjarstjórnar.


Nýbyggingarsvæðin – miðbær – vesturbær


Í Hamranesi er búið að úthluta öllum lóðum, þar er gert ráð fyrir um 1.700 íbúðum, samþykkt hefur verið deiliskipulag fyrir um 1.100 íbúðir og framkvæmdir hafnar á um 400 íbúðum. Mjög lífleg uppbygging er í Skarðshlíð og Ásvallabraut var opnuð þann 21. október, framkvæmd sem kostaði um 800 milljónir. Deiliskipulag fyrir Ásvelli var samþykkt á árinu, þar er m.a. gert ráð fyrir knatthúsi og lóð undir 110 íbúðir í fjölbýli, búið er að auglýsa eftir tilboðum í lóðina. Í miðbænum var samþykkt deiliskipulag tengt Firði verslunarmiðstöð svo og deiliskipulag á svæði kringum Ráðhústorgið. Á þessum stöðum í miðbænum er gert ráð fyrir verslunum, bókasafni, hóteli, veitingastöðum og 77 íbúðum. Risaskipulagsverkefni er endurskoðun á deiliskipulagi vesturbæjar sem nýbúið er í auglýsingar- og kynningarferli, þar er jafnframt búið að vinna tillögu að verndarsvæði í byggð sem verður kynnt sérstaklega.


Önnur skipulagssvæði og framkvæmdir


Nýtt deiliskipulag á Norðurgarði og Norðurbakka var samþykkt á árinu. Framkvæmdum miðar vel á þessu fjölsótta útivistarsvæði og gönguleið sem tengist miðbænum. Uppbygging á nokkrum þéttingarreitum fór af stað á árinu þar sem byggðar verða um 60 íbúðir, flestar í sérbýli. Skipulagsvinna á svæði Selhraun suður er langt komin, þar er gert ráð fyrir um 200 íbúðum og í janúar verður deiliskipulag Áslands 4 tilbúið í auglýsingu þar sem verða um 500 íbúðir, flestar í sérbýli, gert er ráð fyrir að fyrstu lóðirnar verði auglýstar í byrjun sumars. Nýr Tækniskóli verður byggður á hafnarsvæðinu og unnið er að nýju deiliskipulagi fyrir hluta rammaskipulags hafnarsvæðisins á svokölluðu Óseyrarsvæði, þar sem verða um 500-700 íbúðir. Samþykkt var breyting á aðalskipulagi Hafnarfjarðar á Hraunum vestur – fimm mínútna hverfið, þar er gert ráð fyrir um 2.500 íbúðum, framkvæmdir hefjast á vormánuðum á fyrsta hluta þar sem gert er ráð fyrir 490 íbúðum ásamt verslun, þjónustu og leikskóla. Mikil ásókn er í iðnaðarlóðir og var deiliskipulag samþykkt fyrir nýtt iðnaðarsvæði auk þess sem unnið er að skipulagi á öðru svæði, bæði svæðin eru í Hellnahrauni.


Hér hefur verið stiklað á því helsta, samkvæmt því sem talið er upp hér að framan er gert ráð fyrir mikilli fjölgun íbúa og fyrirtækja í Hafnarfirði á næstu árum. Það er bjart yfir Hafnarfirði.