Það er margt í veröldinni sem ég skil ekki. Ég skil ekki af hverju harði diskurinn í tölvunni minni er alltaf yfirfullur þó að ég sé með öll gögnin mín í skýi. Ég skil ekki hvað þriggja fasa rafmagn er, þrátt fyrir að bæði rafmagnsverkfræðingur og rafvirki hafi reynt að útskýra það fyrir mér með bæði snjöllum myndlíkingum og teikningum. Ég set bara stút á munn og þykist skilja. Ég skil ekki upphaf alheimsins. Var ekkert á undan stórahvelli? Hvernig getur ekkert verið til? Ég skil ekki tímaflakk. Né heldur skammtafræði. Allar samræður um skammtafræði sem ég hef átt í eldhúspartíum eru í grunninn þrjár setningar: 1) „Þeir segja að það séu til tuttugu og eitthvað víddir“, 2) „Svakalegt að eitthvað geti verið til á tveimur stöðum á sama tíma“, og 3) „Það verður rosalegt þegar fyrsta skammtafræðitölvan kemur í búðirnar“.

Eftir þessar þrjár setningar er brunnurinn tæmdur og við tekur glíman við að halda andliti það sem eftir lifir samræðu. Taka sopa píreygður. Jánka. Humma. Þoka sér hægt burt.

Nú er búið, eins og frægt er orðið, að selja umtalsvert magn af eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka. Ég held að enginn haldi því fram á þessum tímapunkti að sú sala hafi mælst vel fyrir eða verið sérstaklega vel heppnuð. Ákveðið hefur verið að leggja niður ríkisstofnunina sem sá um söluna. Fólk er ekki ánægt. Um þá óánægju – sem snýst ekki síst um það að útvaldir hafi fengið tækifæri til þess að græða á þessari sölu umtalsvert fé – þarf ekki að fjölyrða. Hún blasir við.

Óánægjuna er auðvelt að skilja og megi sú óánægja hafa einhverjar alvöru afleiðingar, að minnsta kosti þannig að svona klúður endurtaki sig ekki.

Annað skil ég hins vegar ekki. Það er þetta: Nú hefur hið opinbera greitt samanlagt í ráðgjöf og söluþóknun vegna sölu bréfa í Íslandsbanka um tvo og hálfan milljarð. Ótal fyrirtæki hafa komið að verkefninu, sem fram hefur farið í tveimur lotum. Í vikunni var frétt um það að einn slíkur ráðgjafarsamningur hefði kostað 22 milljónir, bara svo dæmi sé tekið. Fyrir liggur að sérstök ríkisstofnun annaðist söluna. Þar að auki er fyrir hendi ráðuneyti á sviði fjármála, og annað á sviði viðskipta, þar sem innanborðs eru væntanlega nokkrir sérfræðingar. Samt þarf að kaupa ráðgjöf. Og það þarf að borga fólki þóknun fyrir að annast sölu bréfanna.

Gott og vel. Vafalítið er alls konar svona þjónusta mikilvæg. Ég býst við að á svona ferli séu ótal hliðar sem fjölmargir aðilar þurfi að hafa yfirsýn yfir og ekki skyldi ég gera lítið úr mikilvægi sérfræðinga sem leita þarf til, svo að svona ferli geti gengið vel fyrir sig og allir séu ánægðir og ekkert klúðrist.

Eða sleppum þessu síðasta. Höfum punktinn bara á eftir “leita þarf til“.

Málið er þetta: Fólk sem ég þekki þurfti að láta teikna lítils háttar breytingu á heimili sínu til þess að fá hana samþykkta hjá sveitarfélaginu. Þau teiknuðu þessa örbreytingu – svalahurð – eiginlega sjálf, í tölvunni, skrifuðu allan texta og sendu síðan á arkitekt, sem setti lógóið sitt á skjalið. Þau misstu kjálkann niður á bringu þegar reikningurinn kom frá stofunni. Hann var nokkur hundruð þúsund.

Mann langar í útskýringu. Í hvað fór tíminn? Nú borgar ríkið tvo og hálfan milljarð í þóknanir og ráðgjöf. Þessi upphæð er af því tagi að fyrir hana má byggja innviði, sem bæta líf fólks. Ég skil lítið í því hvaða úrlausnarefni geta verið svo flókin við sölu á hlutabréfum að sérfræðiaðstoð þurfi að kosta jafnmikið og góð skólabygging. Ég skil ekki heldur hvernig teikning á hurðargati kostar ein mánaðarlaun meðaltekjumanns.

Gaman væri að skilja þó ekki væri nema einn svona bankasölusamning. Tökum þennan sem kostaði 22 milljónir. Áhugavert væri að vita, í þágu gagnsæis, hvernig tímavinnu var háttað einungis í einum slíkum afmörkuðum samningi, svo ekki sé talað um hversu fróðlegt það væri að sjá hið sama líka um alla hina. Hægt er að hafa 16 smiði í fullri dagvinnu í mánuð fyrir 22 milljónir. Hvað var smíðað fyrir ríkissjóð í þessu tilviki? Um hvað var fundað?

Grunsemdir mínar eru eftirfarandi: Ódýr ráðgjöf eða sérfræðiþekking er lítils virði. Hér gildir að því dýrari sem þjónusta er, því betri. Ekki er endilega horft á gæði ráðgjafar til þess að meta gildi hennar, heldur á verðmiðann.

Það er eins og í sumum afkimum veruleikans gildi önnur peningalögmál en annars staðar. Yfirleitt á ríkið engan pening. Svo greiðir ríkið allt í einu sumum fullt af pening.

Það er önnur tegund af skammtafræði sem ég skil ekki.