Ég er með meira skegg en venju­lega. Í tæp fjögur, jafn­vel fimm ár, hef ég skartað rauð­brúnu skeggi sem ég held meðal­stuttu með reglu­legri snyrtingu.

Undan­farnar vikur hefur febrúar­drunginn hins vegar hellst yfir mig af slíkum þunga að ég hef ekki megnað að sinna skegg­snyrtingunni sem skyldi.

Gular við­varanir ofan í gular við­varanir ofan í gular við­varanir og stöðugar til­fallandi á­hyggjur af vöxtum, verk­föllum og þjóð­fé­lags­á­standinu sem fylgja blaða­manns­starfinu hafa orðið til þess að skeggið er komið í ó­rækt.

Þótt ör­lögin hafi ráðið mestu um að ég leyfði skegginu ó­með­vitað að spretta hefur sem betur fer enn enginn sagt við mig: „Oj, hvað þetta er ó­geðs­legt skegg!“ Hverjum er líka ekki sama um út­lit sitt? Slengdi ekki ein­hver gríski heim­spekingurinn því örugg­lega fram að það sé full­komin yfir­borðs­mennska og hégómi að ein­blína á það?

Ég hef engu að síður komist að því að fólk hefur al­mennt gríðar­lega sterkar skoðanir á þessu öllu saman og hefði örugg­lega fengið að heyra þetta ef ég hefði rakað í kleinu­hring eða mottu. Skiljan­lega.

Ég prófaði kleinu­hringinn meira að segja einu sinni og entist tvo daga. Fólk var ekki hrifið. En aftur að síða skegginu. Hingað til hef ég nefni­lega einungis fengið hrós fyrir skeggið!? Eða svo­leiðis. Næstum því.

Sumum finnst það of mikið og allir hafa á því skoðun! Sem er fyndið. Vegna þess að al­menna reglan er að þú megir ekki tjá þig hispurs­laust um út­lit vina þinna og vanda­manna. En þessi regla gildir ekki um skegg. Þannig ég held bara á­fram að safna svo grunn­hyggnir vinir mínir og vinnu­fé­lagar hafi eitt­hvað að skegg­ræða.