27. júlí sl. skrifaði ég pistil í blaðið með fyrir­sögninni „Nýtt sjónar­horn í jafn­réttis­málum“. Setti ég þar fram þá hug­mynd, að sann­gjarnt væri og rétt­mætt, að eldri borgarar, 70 ára og eldri, sem hefðu að miklu lagt grund­völlinn að því sam­fé­lagi, sem við búum í og njótum og skilað hefðu sköttum og skyldum til þjóð­fé­lagsins í hálfa öld eða meir, væru leystir frá frekari beinum skatt­greiðslum til ríkis og bæja; fengju að njóta síðustu áranna, án kvaða og skyldna af þessu tagi.

Það er auð­vitað auð­velt að koma með alls konar hug­myndir og kröfur um aukna vel­ferð lands­manna, eða hópa sam­fé­lagsins, án þess að hugsað sé fyrir því, hvað hún kosti og hvernig eigi að greiða hana.

Ég vil ekki falla í þá gryfju, og hef ég því, með góðri að­stoð Hag­fræði­stofnunar Há­skóla Ís­lands, reiknað út, hvað þetta skatt­leysi eldri borgara myndi kosta og hug­leitt, hvernig mætti fjár­magna það.

Helztu rökin fyrir skatt­leysinu

Fyrir mér væri það rétt­lætis­mál og nýtt á­kjósan­legt stig jafn­réttis, milli hinna ýmsu hópa þjóð­fé­lagsins, að eldri borgarar, sem hafa byggt upp þá inn­viði, sem allir þegnarnir nýta og njóta, fái frið frá kröfu­gerð sam­fé­lagsins, og fram­lagi til þess, eftir hálfrar aldar fram­lag og þátt­töku í upp­byggingu, við 71-75 ára aldur.

Í þessu jafn­réttis­mati, er líka tekið til­lit til þess, að þetta er laskað ævi­skeið margra og vel­ferð og vel­sæld skert. Margir eiga á brattann að sækja með sína heilsu og sitt líf. Líf verður gleði­snautt og dapur­legt hjá mörgum.

Meðal­aldur karla er 81 ár, kvenna 84 ár. Skatta­af­sláttur myndi ein­falda líf flestra og gefa fólki stór­aukna mögu­leika til að njóta þess lífs, sem eftir er, við leik og störf.

Þeim, sem enn eru í fullu fjöri, yrði þetta hvatning til að halda á­fram þátt­töku í at­vinnu­lífinu, og héldist því vit­neskja og færni, sem reynslan ein kennir, lengur og betur í at­vinnu­lífinu.

Hvers eðlis væri skatta­af­slátturinn?

Miðað er við, að af­sláttur sé veittur á beina – stað­greiðslu – skatta, þ.e. á elli­líf­eyris­greiðslur, líf­eyris­sjóðs­greiðslur og at­vinnu­tekjur, ef við­komandi er enn á vinnu­markaði.

Af­slátturinn sé 20% við 71 árs aldur, 40% við 72 ára aldur, 60% 73 ára, 80% 74 ára og 100% (al­gjört stað­greiðslu skatt­leysi) við 75 ára aldur. Hjá hjónum gildi aldur þess, sem eldra er.

Eldri borgarar greiði fjár­magns­tekju­skatt af vaxta­tekjum, arði af hluta­bréfum eða verð­bréfum eða af húsa­leigu­tekjum, fullum fetum, á­fram.

Hvað kostaði svo skatt­leysið?

Skv. könnun Al­þjóða­gjald­eyris­sjóðsins í ríkjum Evrópu­sam­bandsins, endur­heimtir hið opin­bera 40 aura af hverri krónu, sem veitt er í skatta­lækkun. Er gengið út frá því hér.

Skv. því væri tekju­tap hins opin­bera, ef skatt­leysis­ferlið hefðist 1. janúar 2023, byggt á út­reikningum Hag­fræði­stofnunar H.Í., þetta:

Hvernig mætti jafna tekju­tap hins opin­bera?

Eins og fram kemur, yrði þetta tekju­tap 4,35 mia.kr. fyrsta árið, færðist svo, ár fyrir ár, upp í 21,75 mia.kr. á fimmta ári og héldist þar.

Nemur sú fjár­hæð um 0,8% af vergri lands­fram­leiðlsu.

Í marg­vís­legu talna­sam­bandi væru þessar fjár­hæðir ekki ýkja háar. Hagnaður bankanna þriggja, nú fyrsta hálfa árið, er t.a.m. 32 mia.kr. Hagnaður Sam­herja einn sér myndi duga fyrir stórum hluta endan­legs skatta­af­sláttar. Á­fengis­gjaldið, sem var yfir 20 mia.kr. 2020, og er nú væntan­lega komið í 21-22 mia.kr., myndi dekka af­sláttinn að fullu til fram­búðar.

Banka­skattinn mætti líka skoða. Hann var lækkaður úr 0,376% 2020 niður í 0,145%. Ef hann væri tekinn sér­stak­lega í þessa skatta­lækkun, þyrfti hann að vera 0,15% fyrsta árið, 0,30% annað, 0,45% þriðja, 0,60 fjórða og 0,75% fimmta árið og til fram­búðar.

Bezt færi samt senni­lega á því, að á­fengis­gjaldið yrði eyrna­merkt þessari auknu vel­ferð eldri borgara og bættum lífs­gæðum þeirra.

Að því leytinu til, sem þessi skatta­lækkun myndi skerða heildar­tekjur ríkis­sjóðs, hefði hann 5 ár til að að­lagast breytingunni.

Betri heilsa – sparnaður í heil­brigðis­kerfinu

Ólafur Ólafs­son heitinn, fyrr­verandi land­læknir, og margir aðrir sér­fræðingar í aldurs- og heilsu­málum, hafa sett fram þá skoðun, að, ef betri af­koma eldri borgara og réttur til á­fram­haldandi starfs þeirra, sem á­fram vilja og geta starfað, væri tryggð, myndi það stór­bæta heilsu­far þessa hóps, sem nú telur um 45.000 manns, og draga stór­lega úr á­lagi og kostnaði við heil­brigðis­þjónustuna. Gæti þessi fjár­hags­legi á­vinningur numið milljörðum á ári.

Höfundur er samfélagsrýnir og dýraverndarsinni.