Íslendingar 67 ára og eldri voru 48.720 í byrjun þessa árs. Fyrirsjáanleg er hröð fjölgun eldra fólks á komandi árum. Hagur fólks á þessum aldri er misjafn og áunnin réttindi til lífeyris úr lífeyrissjóðum með ýmsu móti. Hér ræðir um fólkið sem að mestu leyti hefur skilað ævistarfinu og reiðir sig á lífeyri úr lífeyrissjóðum og eftir atvikum úr almannatryggingum auk sparnaðar sem kann að vera fyrir hendi.

Almennt mun sammæli um að búa beri að eldra fólki með mannsæmandi hætti. Þar skipta ákvarðanir stjórnvalda um fjárhagslega umgjörð þess miklu máli.

Ýmsir eiga rétt á lífeyri úr lífeyrissjóðum áður en 67 ára aldri og eru því ellilífeyrisþegar fleiri en hópurinn 67 ára og eldri. Þannig voru ellilífeyrisþegar 52.150 á árinu 2020 og er athyglisvert að skoða skiptingu lífeyris eftir uppruna, þ.e. hvort hann kemur úr lífeyrissjóðum eða frá Tryggingastofnun ríkisins (TR). Árið 2020 nutu 1.350 manns lífeyris einungis frá TR. Flestir fengu lífeyri bæði frá lífeyrissjóðum og TR eða 36.500. Þá stendur eftir hópurinn sem fær einungis lífeyri frá lífeyrissjóðum en þar ræðir um 14.300 manns á árinu 2020.

Vafasöm framkvæmd skattamála

Persónuafsláttur skiptir miklu fyrir alla greiðendur tekjuskatts, þar á meðal eldra fólk. Raunin er sú að hann hefur ekki tekið mið af launaþróun eins og eðlilegt væri að hann gerði. Sé litið til nýliðins tíma sést að árið 2020 var persónuafsláttur 54.628 krónur á mánuði en árið 2021 lækkaði hann í krónur 50.792 á mánuði. Í ár hækkaði hann frá fyrra ári í 53.916 á mánuði en er samt sem áður lægri en hann var árið 2020. Þetta atriði eitt út af fyrir sig að persónuafsláttur fylgi ekki launaþróun felur í sér ígildi hækkunar skatta milli ára og kemur þyngst niður á þeim sem lökust hafa kjörin.

Ég hefi í greinum fjallað um of­sköttun séreignarsparnaðar. Meginatriði þess máls eru að ríkið stuðlar að séreignarsparnaði með skattafslætti. Slíkir skattafslættir eru þekktir, t.d. afsláttur vegna kaupa á hlutabréfum, afslættir til fyrirtækja sem vilja reka stóriðjuver hér á landi eða taka upp kvikmyndir eða sjónvarpsþáttaraðir í íslensku umhverfi.

Skattafslættir leiða í þessum tilfellum ekki til sérstakrar skattkröfu síðar. En gagnvart eldra fólki þykir hæfa að hafa uppi digra skattkröfu sem felst í að skattleggja séreignarsparnað eins og hann væri launatekjur. Hann er það ekki. Hann er eign sem stendur saman af sparnaðargreiðslum og að mestu af ávöxtun þeirra yfir langan tíma.

Miðstig tekjuskatts er sem næst 38%, skattur af fjármagnstekjum er 22%. Allir sjá muninn. Hvaða þjóðfélagshópi öðrum en eldra fólki væri boðið upp á að ganga svo nærri eignum þeirra?

Hér verða ekki tæmandi taldar þær leiðir til ofsköttunar sem af hugkvæmni hafa verið ofnar í lög um tekjuskatt. Við þau dæmi sem hér hafa verið nefnd er þó rétt að bæta við því ákvæði laganna að með vöxtum teljist áfallnar verðbætur á höfuðstól og vexti, t.d. af innstæðum í bönkum. Verðbætur eru uppbætur vegna verðrýrnunar peningalegrar eignar. Telja verður nánast ósvinna að reikna slíkar uppbætur til tekna.

Skerðingaflóran í almannatryggingum

Ellilífeyrir TR er í ár 286.619. á mánuði. Fjárhæð lífeyris almannatrygginga er ákveðin árlega en ætti að réttu lagi að endurskoðast mánaðarlega eins og lífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóðum. Þrátt fyrir ákvæði 69. greinar laga um almannatryggingar að ákvörðun þeirra skuli taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs, sýnist föst regla að hækkunin heldur ekki í við launaþróun.

Ákvarðanir stjórnvalda í þessu efni sýnast ógagnsæjar um annað en þá reglu að víkja frá skýrum lagafyrirmælum. Þessi háttur, að lífeyrisgreiðslur fylgi ekki launaþróun, felur í raun í sér skerðingu á greiðslum ár frá ári og aukna gliðnun tekna.

Við þessar skerðingar búa eldri borgarar sem reiða sig á greiðslur frá TR meðan laun í opinbera geiranum fara ört hækkandi að ekki sé talað um hástökkin í kjörum ýmissa hópa.

Meðal helstu skerðingarreglna ellilífeyris frá TR eru að hann er skertur um 45% af atvinnutekjum umfram krónur 200.000 á mánuði. Sams konar skerðing á við um lífeyris- og fjármunatekjur umfram krónur 25.000 á mánuði. Þessi fjárhæð, svo naumleg sem hún var ákveðin á Alþingi 2016, hefur ekki breyst frá þeim tíma enda þótt laun og verðlag hafi hækkað umtalsvert á tímabilinu. Með því er gengið enn nær lífeyrisréttindum en ella.

Séreignarsparnaður, sem stofnast með greiðslum umfram iðgjalds til lífeyrissjóðs leiðir ekki til skerðinga á greiðslum TR. Hins vegar kveða ný lög samþykkt á Alþingi í júní á þessu ári á um að tilgreind séreign, sem stofnast sem hluti iðgjalds í lífeyrissjóð, leiðir til skerðingar um 45% af útgreiðslum.

Aðilar vinnumarkaðarins standi við bak eldra fólks

Eldra fólki var ekki tryggt að það fengi að njóta umsaminnar lífskjarahækkunar sem var árið 2021 15.750 krónur á mánuði og frá ársbyrjun 2022 17.250 krónur á mánuði.

Aldraðir fengu ekki eins og öryrkjar aukalega desemberuppbót síðustu tvö ár, sem nam 50 þúsund krónum árið 2020 og 53 þúsund krónum 2021.

Tómlæti stjórnvalda kemur kannski út af fyrir sig ekki á óvart en ef til vill mætti spyrja um hlut verkalýðshreyfingar þar sem hér eiga í hlut fyrrverandi félagsmenn í stéttarfélögum á vinnumarkaði. Þá gerðu atvinnurekendur rétt í að standa við bak eldra fólks sem fyrrum starfsmanna sinna meðan það var á vinnumarkaði.